Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar, stendur sannarlega undir eigin nafngift sem „óþekkti embættismaðurinn“ því í nýrri skoðanakönnun Maskínu fær hún þann vafasama heiður að mælast með 0,0% fylgi, en það þýðir að enginn aðspurður nefndi nafn hennar af svarendum könnunarinnar.
Helga mældist með 0,2% í síðustu könnun Maskínu og 0,4% fylgi í skoðanakönnun Prósents fyrir Morgunblaðið á dögunum, svo það er greinilega á brattann að sækja fyrir framboð hennar.
Spurð um viðbrögð við könnunni sagði Helga, í samtali við mbl.is í fyrradag:
„Þetta kemur mér ekkert rosalega á óvart þar sem ég er eiginlega nýbyrjuð í minni kosningabaráttu.“
Og hún bætti við:
„Ég er greinilega óþekkti embættismaðurinn og hef greinilega unnið verk mín hljóðari heldur en ég að einhverju leyti bjóst við þrátt fyrir að hafa verið lögfræðingur í opinbera geiranum í 29 ár og búin að stýra einni vandasömustu stofnun bráðum í níu ár. Það vita greinilega ekki allir af því.“
Helga tók þó fram, að hún finni fyrir „ótrúlegum miklum stuðningi úr alls konar óvæntum áttum sem hún hafi ekki búist við“ sem segi henni, að hennar rödd þurfi að fá að heyrast.
„Á meðan ég að heyra svona sterkt af þessum stuðningi þá ætla ég að halda áfram,“ segir Helga.