Ótrúleg vonbrigði með Biden

Ekki þarf að skoða bandaríska fjölmiðla lengi þessa dagana, hvort sem þeir hallast til hægri eða vinstri, til að skynja þau gríðarlegu vonbrigði sem margir hafa orðið fyrir með Joe Biden forseta frá því hann tók við embætti og alveg sérstaklega undanfarnar vikur.

Skyndilegur brottflutningur Bandaríkjamanna frá Afghanistan virkar óundirbúinn og gæti haft í för með sér gríðarlegar afleiðingar í alþjóðastjórnmálum. Vinveittasta ríkisstjórn vesturlanda í þessum heimshluta víkur fyrir ógnarstjórn sem minnir á miðaldir, þar sem kúgun kvenna þykir sjálfsögð, mannréttindi eru fótum troðin og til verður alþjóðleg mannúðarkrísa og tómarúm sem erfitt getur reynst að vinna úr.

Auðvitað var enginn góður tími fyrir Bandaríkjamenn til að draga herlið sitt til baka, en Biden var ekkert fyrsti forsetinn sem áformaði það. Obama og Trump ætluðu sér það líka, en sáu að sér við nánari umhugsun og töldu hættuna of mikla. Að Biden hafi ofmetið svo styrk heimastjórnarinnar sem lyppaðist niður án nokkurs mótþróa er sérstakt rannsóknarefni og að hann bregðist nú vestrænum bandamönnum sínum með því að halda fast við ákvörðun sína þrátt fyrir þróun mála og vilja enga fresti ræða, er köld tuska framan í þá sem töldu alþjóðasamstarfi betur borgið með Biden í Hvíta húsinu en forvera hans Donald Trump.

Vestrænir fjölmiðlar segja að Afghanistan-hneykslið geti í reynd rústað forsetaferli Bidens áður en hann hófst að nokkru ráði og benda á líkindi við gíslatökuna í Íran sem reyndist myllusteinn um háls Jimmy Carter á sínum tíma. Breskir stjórnmálaskýrendur líkja þessu einnig við álitshnekkinn sem Anthony Eden, forsætisráðherra Breta, varð fyrir í Súez-deilunni upp úr miðri síðustu öld.

Það átti að verða draumur hvers forseta að taka við af hinum umdeilda Trump, en sá draumur Bidens er á góðri leið með að snúast upp í martröð. Bandarískir fjölmiðlar eru farnir að viðra áhyggjur af háum aldri hans og heilsufari og dómgreind á ögurstundu. Þá sýna skoðanakannanir að vinsældir hans hafa dvínað mjög á skömmum tíma…