Óttar skammast sín: „Í þessum hildarleik er gott að kúra undir Natóábreiðunni“

Frá svonefndri Keflavíkurgöngu íslenskra herstöðvarandstæðinga á árum áður.

Óttar Guðmundsson, geðlæknir og andstæðingur herliðs Bandaríkjanna hér á landi og aðildar Íslands að Atlantshafsbandalaginu NATO, kveðst skammast sín fyrir barnalega afstöðu sína gegnum árin og viðurkennir að nú „í þessum hildarleik“ sem standi yfir vegna innrásar Rússa í Úkraínu sé „gott að kúra undir Natóábreiðunni.“

Óttar skrifar þetta í bakþönkum Fréttablaðsins í gær og rifjar upp að hann hafi verið ársgamall, þegar Ísland gekk í Nató árið 1949.

„Móðir mín fór niður á Austurvöll til að mótmæla með mig í barnavagni. Þegar átökin brutust út og táragasið lagðist yfir Jón Sigurðsson, forðaði hún sér hóstandi og grátandi af vettvangi. Þetta var minn fyrsti mótmælafundur gegn her í landi og Atlantshafsbandalaginu.

Í kjölfarið fylgdu málfundir í mörgum skólum þar sem ég æsti mig gegn hernum og Nató. Ég fór aldrei í heila Keflavíkurgöngu en gekk bæði frá Hafnarfirði og Kópavogi og tók þátt í útifundum í Miðbæjarskólaportinu. Ég var heitur andstæðingur ameríska hersins og Atlantshafsbandalagsins. Engin hætta stafaði af Rússum enda voru þeir friðsamir mannvinir. Mamma var félagi í Menningar- og friðarsamtökum íslenskra kvenna sem studdu Moskvustjórnina. Foreldrar mínir voru í MÍR (Menningartengsl Íslands og Ráðstjórnarríkjanna) sem átti að stuðla að friði!“

Ljóst er að atburðirnir nú í Úkraínu hafa breytt heimsmynd Óttars, eins og margra annarra:

Óttar Guðmundsson geðlæknir.

„Árás Rússa á nágranna sína í Úkraínu er glæpur sem líkist innrás Þjóðverja á Pólland 1939. Forseti Rússlands er á heilagri vegferð til að vernda rússneska þegna. Úkraínumenn kölluðu yfir sig árásina með framferði sínu. Miskunnarlausar árásir á óbreytta borgara einkennast af skefjalausri mannvonsku. Þjáningar og dauði skipta engu.

Í þessum hildarleik er gott að kúra undir Natóábreiðunni. Maður skammast sín fyrir að hafa verið svo barnalegur að halda að rússnesk útþenslustefna væri ekki til. Gamla slagorðið, Ísland úr Nató og herinn brott! hljómar í dag ósköp barnalega og í engu samhengi við veruleikann. Rússagrýlan er sprelllifandi með alla vasa fulla af kjarnorkuvopnum og hroka,“ segir hann.