Óvenju glæsilegur viðskilnaður

Sú ákvörðun dr. Gunn­ars Ein­ars­sonar, bæj­ar­stjóra og odd­vita meiri­hlut­a Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ, um að sækj­ast ekki eft­ir end­ur­kjöri fyrir bæjarstjórnarkosningarnar næsta vor og láta af störf­um að yf­ir­stand­andi kjör­tíma­bili loknu, þarf ef til vill ekki að koma á óvart, enda hefur Gunnar verið bæj­ar­stjóri í Garðabæ í sautján ár og orðinn 67 ára gam­all. En það verður að segjast eins og er, að ferill hans sem embættismanns og síðar kjörins fulltrúa í þessu bæjarfélagi hefur verið óvenju farsæll og viðskilnaðurinn glæsilegur eftir því.

„Ég kom til starfa hjá Garðabæ 25 ára gam­all og starfaði sem íþrótta- og tóm­stunda­full­trúi og síðar sem for­stöðumaður fræðslu- og menn­ing­ar­sviðs áður en ég var ráðinn bæj­ar­stjóri árið 2005. Ég hef varið rúm­lega 40 árum starfsævi minni í þjón­ustu við Garðbæ­inga. Á þessu langa tíma­bili hef ég tekið virk­an þátt í upp­bygg­ingu bæj­ar­ins bæði sem emb­ætt­ismaður, stjórn­mála­maður og þátt­tak­andi í fé­lags­starfi inn­an bæj­ar­mark­anna. Jafn­framt hef ég fengið tæki­færi frá vinnu­veit­and­an­um Garðabæ á að mennta mig til hæstu gráðu,“ sagði Gunnar í gær er hann tilkynnti ákvörðun sína.

Menntunin til hæstu gráðu sem hann vísaði til, felst í því að samhliða störfum fyrir Garðabæ bætti Gunnar við sig meistaragráðu í stjórnun- og menntunarfræðum frá Háskólanum í Reading árið 2002 og svo doktorsgráðu í sömu greinum frá sama skóla sex árum síðar. Geri aðrir betur, ekki síst þegar horft er til þess að hinn gamli Garðahreppur hefur á undanförnum árum gjörbreyst úr litlu svefnsamfélagi í sambúð við borgina yfir í stórt og vaxandi sveitarfélag með mikla vaxtarmöguleika. Þessu hafa landsmenn tekið eftir og einnig Garðbæingar, sem sýnir sig kannski best í því að undir forystu Gunnars landaði Sjálfstæðisflokkurinn í Garðabæ sinni bestu niðurstöðu í sögunni vorið 2018 með rúmlega 62% fylgi í sístækkandi bæ.

Á undanförnum árum hefur uppbygging íþróttamannvirkja, skólastarfs og leiksskólamála verið í fremstu röð á landsvísu í Garðabæ. Íbúafjöldinn hefur ríflega tvöfaldast, hvorki meira né minna, en samt náðst að halda sköttum niðri þrátt fyrir hátt þjónustustig. Skipulagsmálin hafa svo verið mjög spennandi og framsækin; margir yngri sjálfstæðismenn sýndu sameiningaráformum við Álftanes lítinn skilning eða lögðust gegn þeim, enda fjárhagsvandræðin þar mikil eftir gríðarhraða uppbyggingu mannvirkja, en Gunnar keyrði það mál áfram og nú gagnrýnir það enginn, enda stórkostlegir möguleikar á frekari uppbyggingu á besta stað til framtíðar fólgnir í sameinuðu sveitarfélagi sem býður þó enn upp á búsetumöguleika í sveit og borg, ef svo má segja.

Fleira mætti nefna. Skipulag á nýjum hverfum sem slegið hafa í gegn meðal allra íbúa á höfuðborgarsvæðinu, til að mynda í Kauptúni þar sem verslanir á borð við Toyota, IKEA og Costco hafa valið að byggja upp starfsemi sína og nú er framundan spennandi uppbygging í Vetrarmýri eftir kaupin á Vífilstaðalandinu af ríkinu, auk þess sem áratuga kyrrstaða hefur verið rofin á Arnarlandi, þar sem framundan er að byggja upp glæsilegt heilsuþorp með fyrirtækjum og þjónustu.

Komandi prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ verður án efa spennandi, enda hlýtur starf bæjarstjóra í Garðabæ til framtíðar að teljast með betri bitum í íslenskri stjórnsýslu. Þar hugsa eflaust ýmsir sér gott til glóðarinnar, en þeir taka sannarlega við góðu og myndarlegu búi, um það deilir vart nokkur maður.