Óvinsæl ríkisstjórn færir Kristrúnu vopnin upp í hendurnar

Alþingishúsið við Austurvöll / Bragi Þór Jósefsson fyrir Alþingi.

Nýr Þjóðarpúls Gallup, fyrir janúarmánuð, sem Ríkisútvarpið birti í gær, sýnir áframhaldandi stórsókn Samfylkingarinnar (ríflega 30% fylgi) og áframhaldandi hraðleið ríkisstjórnarflokkanna niður á við. Sögulegur fylgistoppur Samfylkingarinnar í fimmtán ár skýrist ekki af neinu einu útspili flokksins undanfarnar vikur, heldur því að formaðurinn Kristrún Frostadóttir getur stillt sér upp sem sjálfsöruggri andstöðu við stjórnleysið við ríkisstjórnarborðið.

Styrkur Samfylkingarinnar samkvæmt könnuninni er raunar svo mikill, að nærri lætur að hún hafi sama fylgi og allir ríkisstjórnarflokkarnir samanlagt, sem segir sína sögu.

Þrátt fyrir ýmis útspil Bjarna Benediktssonar formanns Sjálfstæðisflokksins og harðar deilur kringum mögulegt vantraust á Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra — þar til greint frá veikindum hennar og veikindaleyfi í kjölfarið — er Sjálfstæðisflokkurinn fastur við botn síns sögulega fylgis, mælist nú um 18%. Innanhússmenn í þeim fyrirtækjum sem gera skoðanakannanir, segja að staðan hafi verið verst í upphafi mánaðarins þegar kynnt var um skipan nýrra sendiherra; þá hafi fylgi flokksins lægst farið í rúm 12%. Já, lesendur lásu rétt, ríflega tólf prósent. Útspil formannsins um útlendingamál hefur svo eitthvað náð að klóra í bakkann þegar líða tók á mánuðinn. En ekki nokkur maður getur verið ánægður í Valhöll, nema kannski Guðlaugur Þór og hans menn, sem benda öllum á að valkostinum gegn Bjarna hafi verið hafnað á landsfundi og þetta sé niðurstaðan af því.

Framsókn er enn að pæla í nýju slagorði fyrir komandi aukakosningar, sem boðað verður til með skömmum fyrirvara, og lætur hvorki 8% útkomu nú, né deilur hinna stjórnarflokkanna hafa of mikil áhrif á sig. Sigurður Ingi og hans nánasta fólk gefa í skyn að hann væri rétti maðurinn til að vera forsætisráðherra í starfsstjórn fram að kosningum.

Miðflokkur Sigmundar Davíðs og Bergþórs Óla er hins vegar áfram á siglingu. Þar eru líklega á ferðinni tveir duglegustu þingmenn landsins nú; þeir eru allstaðar og þurfa auðvitað að vera það til að dekka sömu verkefni og þingflokkar af margföldum styrk. En það er að takast og málflutningur flokksins mælist æ betur fyrir, andstæðingunum til sárrar gremju sem höfðu enn einn ganginn talið Sigmund Davíð af í pólitík.

En fréttir af því andláti voru stórlega ýktar og Miðflokkurinn fékk þrjá menn kjörna (þótt þess þriðja, Birgis Þórarinssonar, sé enn saknað síðan á kosninganótt að hann sást í för með sjálfstæðismönnum sem lofuðu honum öllu fögru, en séð litlar efndir og vill helst snúa aftur heim en fær litlar undirtektir við því). Þar með voru þeir ekki alveg horfnir, rétt eins og Samfylkingin þegar hún fór niður í þriggja manna þingflokk í versta skellinum eftir hrun og hvarf eiginlega af Suðvesturhorninu. En mesta viðspyrnan er af botninum, eins og báðir flokkar geta vitnað um nú.

Stóra spurningin þessa dagana, er hvers vegna Viðreisn nær ekki að auka fylgi sitt þrátt fyrir ævintýralegar óvinsældir ríkisstjórnarinnar? Þar á bæ þarf fólk að tala skýrar, einfalda stefnumálin og þora að taka áhættu, því borgaralegu öflin eru í sókn um allan hinn vestræna heim og Viðreisn hlýtur að ætla sér eina eða tvær sneiðar af þeirri köku. Flokkurinn er til dæmis með ósýnilegan varaformann og skortir mjög sérstöðu. Vókið er mjög á undanhaldi, en er nánast að kæfa hugmyndafræðinga Viðreisnar sem eru svo samfélagslega meðvitaðir að það hálfa væri nóg. Þar mætti flokkurinn vel við því að lofta aðeins út og tala meira við venjulegt fólk í landinu. Það hefur eina eða tvær skoðanir á því hvað þarf helst að gera nú um stundir. Í því samtali ætti formaðurinn Þorgerður Katrín að brillera, því fáir eru betri en hún í mannlegum samskiptum.

Píratar eru ekki alveg í tísku um þessar mundir, en eiga samt kjarnafylgi sem þeir sinna vel. Þeir eru meðvitaðir um að breikka þurfi ásýndina og koma með nýjar áherslur. Inga Sæland er byrjuð að svipast um eftir þekktum einstaklingum til að setja á lista í næstu kosningum, svo Flokkur fólksins mun ná að reka sínar rollur í réttirnar.

Sósíalistaflokkurinn mælist enn ekki með mann inni samkvæmt Þjóðarpúlsinum þrátt fyrir að Gunnar Smári hafi riggað upp nýrri sjónvarpsstöð og standi fyrir markvissri umræðu í heimahöfn fyrir vinstrið, en aðeins Samfylkingin græðir á því — enn sem komið er.

Og þá er það VG sem vermir botninn og rétt við að þurrkast af þingi. Flokkur forsætisráðherrans sem ræður í reynd stjórnarstefnunni í stórum og smáum málum. Þar er planið að Svandís Svavarsdóttir taki fljótlega við forystu, þegar Katrín Jakobsdóttir hefur formlega sett stefnuna á Bessastaði og hún verður þá rækilega nestuð með fullbúin frumvörp um kerfisbreytingar í sjávarútvegi, eldismálum og hvalveiðum, svo eitthvað sé nefnt. Í næstu kosningum mun VG segjast vera náttúruverndarflokkurinn sem hafi stöðvað virkjanir, haft dýravelferð að leiðarljósi og ætlað að kollvarpa kvótakerfinu.

En hver voru stóru tíðindin í þessum Þjóðarpúlsi? Jú, fylgi Samfylkingarinnar hefur, undir forystu Kristrúnar Frostadóttur þrefaldast frá kosningum. Miðflokkurinn hefur meira en tvöfaldast. Á móti hafa Vinstri græn og Framsókn misst helminginn af sínum stuðningsmönnum og Sjálfstæðisflokkurinn fjórðung síns fylgis, sem var sögulega lágt fyrir.

Allir vita að ríkisstjórnin er lifandi dauð; enginn vill vera sá sem sprengir hana en vita að það er óumflýjanlegt að gerist fljótlega. Kosningar verða annað hvort í mars eða þá í haust, að loknum forsetakosningum. Starfsstjórn gæti verið við völd fram að því. Í millitíðinni þarf að koma á samningum á vinnumarkaði og eiga við náttúruöflin sem eru ekki hætt, langt frá því.

Íslensk pólitík er engu lík um þessar mundir.