Gunnar Smári Egilsson er orðinn óvinur ríkisstjórnarinnar nr. 1, ef marka má storminn kringum hann í fjölmiðlum og á samskiptamiðlum.
Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði, fer mikinn gegn Gunnari Smára og spyr hvort ekki sé kominn tími til að safna upp í fargjald fyrir Gunnar Smára til Venesúela, aðra leiðina.
Segir hann ótrúlegt að maður „sem var leigupenni auðjöfra árin fyrir bankahrun“ skuli ganga um „sperrtur og leika verkalýðsleiðtoga og sósíalistaforingja. Enn ótrúlegra er, að einhver skuli fylgja honum.“
Málið er, að margir stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar telja fullvíst orðið að Gunnar Smári sé andstæðingur sem beri að taka mjög alvarlega. Hann hafi stofnað stjórnmálaflokk, taki mikið pláss í umræðunni með beittum skrifum og skipulögðum málflutningi og með beintengingu við nokkur stærstu verkalýðsfélögum landsins (sem eru komin á fullt í eigið kynningarstarf og áróðursherferðir) nái Sósíalistaflokkurinn hans miklu meira vægi í umræðunni en ella væri.
Venjulegir stjórnmálaflokkar eru bundnir af lögum um fjármál og háðir eftirliti Ríkisendurskoðunar (auk þess sem þeir eru flestir fjárvana) en Efling, VR, Starfsgreinasambandið og ASÍ, sitja á gríðarlegum sjóðum og munar ekkert um tugmilljóna herferðir, eins og dæmin sanna.
Þessir sömu aðilar segja augljóst að Gunnar Smári og ný verkalýðsforysta ætli að láta sverfa til stáls strax í þessum mánuði og þeim næsta. Verkföll verði boðuð og mótmæli gulvestunga skipulögð. Ætlunin sé að skapa pólitískan glundroða, koma ríkisstjórninni frá og boða til kosninga.
Þar sem Sósíalistaflokkurinn eigi að verða helsti sigurvegarinn.
Væntingar um stóran og öflugan þingflokk
Sjálfur segir Gunnar Smári þetta um flokkinn og stöðu hans í könnunum nú:
„Samkvæmt Gallup mældist fylgi við Sósíalistaflokkinn 3,4%, sem samkvæmt kosningalögum flestra landa (og þeim sem giltu hér áður en Davíð Oddsson óttaðist Frjálslynda flokkinn svo mjög að hann fékk fjórflokkinn til að samþykkja hæsta þröskuld fyrir útdeilingu jöfnunarsæta í okkar heimshluta) gæfi flokknum tvo þingmenn.
En óttist eigi; flokkurinn mun fara vel yfir 5% þröskuldinn hvort sem kosið verður í vor eða síðar. Einum og hálfum mánuði fyrir borgarstjórnarkosningar mældust sósíalistar með 0,4% í könnunum en fengu 6,4% upp úr kössunum. 3,4% í fyrstu mælingu Gallup löngu fyrir kosningar gefur því væntingar um stóran og öflugan þingflokk sósíalista eftir næstu kosningar.“