„Fólk er lokað inni og á ekki annarra kosta völ en að bíða. Sum bíða eftir mat, sum bíða eftir vatni, sum eftir næsta sprengjuregni og sum, rúmlega 100 manns, eru að bíða eftir okkur. Dvalarleyfi hafa verið afgreidd af Útlendingastofnun. Fararleyfi hafa verið afgreidd úr félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu. Aðstoð yfir landamæri er í lögsögu utanríkisráðuneytisins. Það er flókið. Það hefur verið upplýsingaóreiða í kringum þessi mál, um hvað er flókið og hvað er hægt og hver á og hver má gera og fara og aðhafast. Forsætisráðherra hefur sagt skýrt að það eigi að sækja þetta fólk sem er að bíða eftir okkur. Félags- og vinnumarkaðsráðherra hefur sagt að við eigum að gera allt sem í okkar valdi stendur. Meirihluti þingheims er sammála sem og þorri þjóðarinnar,“ sagði Brynhildur Björnsdóttir, sem situr á þingi fyrir Vinstri græn um þessar mundir sem þingmaður í forföllum Svandísar Svavarsdóttur. Hún varpaði þannig allri ábyrgð á Sjálfstæðisflokkinn á pattstöðunni sem ríkt hefur um málefni þess fólks sem hefur fengið dvalarleyfi á Íslandi á grundvelli fjölskyldusameiningar, en er enn fast á átakasvæðum á Gaza.
Eins og Viljinn hefur skýrt frá undanfarið, er málið hefur vægast sagt umdeilt og hefur verið lengi innan ríkisstjórnarinnar. Vinstri græn eru hætt að fela það og segja ábyrgðina liggja hjá formanni Sjálfstæðisflokksins, Bjarna Benediktssyni utanríkisráðherra. Hann hefur reynt að útskýra að innviðir séu sprungnir, að sækja fólk þangað og flytja heim geti verið fordæmisgefandi og hljómgrunnur er fyrir slíkum sjónarmiðum í baklandi Sjálfstæðisflokksins, en mótmælendur á Austurvelli og fyrir framan lögreglustöðina í Reykjavík höfðu lítinn áhuga á slíkum málflutningi og spyrja ítrekað: Hvenær verður fólkið sótt?
Tilfinningar og ólík hugmyndafræði
Pólitísk staða málsins er flókin og ekki auðvelt að sjá fyrir sér niðurstöðu þar sem þau geta bæði haldið andlitinu, forsætisráðherrann og utanríkisráðherrann. Tekist hefur verið á um málið undanfarna daga í ríkisstjórn og í sérstakri ráðherranefnd um útlendingamál. Þar er Sjálfstæðisflokkurinn sagður vilja knýja á um breytingar á útlendingalögum gegn því að koma fólkinu til bjargar sem bíður nú á Gaza.
Tilfinningar blandast hér inn og ólík hugmyndafræði ólíkra flokka. Það verður erfitt fyrir Vinstri græn að samþykkja breytingar á útlendingalögum undir afarkostum Sjálfstæðisflokksins. Að sama skapi verður allt vitlaust innan Sjálfstæðisflokksins, ef forystan gefur eftir í enn einu málinu og það fyrir allra augum. Þar er fólk þeirrar skoðunar, að verði rúmlega hundrað manns flutt hingað til lands nú, verði krafan í næstu viku að tvö hundruð verði bjargað og svo koll af kolli. Að ekki sé minnst á að fleiri sem hingað koma muni í framhaldinu eiga rétt á sinni eigin fjölskyldusameiningu í framhaldinu.
Í gær bárust fregnir af því að þrír diplómatar séu komnir til Egyptalands til viðræðna við þarlend stjórnvöld um stöðuna. Formaður félagsins Ísland/Palestína fagnaði því að loksins væri eitthvað að gerast, en margir sjálfstæðismenn hleyptu brúnum. Er Bjarni búinn að bakka og gefa VG eftir ákvörðun í málinu? Eða var samið um að hjálpa þessum 130 Palestínumönnum heim, gegn því að herða lögin í framhaldinu og koma í veg fyrir að fleiri komist þessa leið framvegis? Munu Vinstri græn halda út í þinginu að styðja slíka lagabreytingu?
Einn þeirra af hægri vængnum, sem undrast framvindu mála er Þórður Pálsson, forstöðumaður fjárfestinga hjá Sjóvá og áhrifamikill samfélagsrýnir á borgaralega vængnum. Hann segir á X alveg hafa farið framhjá sér að Sjálfstæðisflokkurinn sé orðnn aktivistaflokkur sem fari fremur að óskum mótmælenda við lögreglustöðina en eigin kjósendum.
Við upphaf þingfundar í dag hlýtur að skýrast betur hvort Vinstri græn samþykktu herta löggjöf í útlendingamálum gegn lausn þessa máls. Eða hvort formaður Sjálfstæðisflokkur æsti enn einn ganginn bakland sitt upp með stórum yfirlýsingum, aðeins til að gefa svo eftir á endanum og valda baklandi sínum djúpum vonbrigðum. Gerist það, mun fylgi flokksins aðeins halda áfram að fara niður. Og Miðflokkur Sigmundar Davíðs og Bergþórs Ólasonar mun njóta góðs af því…