Pínleg staða að smáflokkur stöðvi allt, en ljóst hverjir sitja uppi með skömmina

Það er satt að segja orðið pínlegt að horfa upp á kyrrstöðuna í orkumálum nú þegar Miðflokkur og Viðreisn hafa lýst yfir stuðningi á þingi við frumvörp um flýtiaðgerðir í virkjanamálum og Samfylkingin tekur í sama streng í forsíðufrétt Morgunblaðsins í dag.

Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fv. ráðherra í 2. ráðuneyti Katrínar Jakobsdóttur, hefur lýst því yfir að hann treysti ríkisstjórninni ekki til að ráða bót á ástandinu. Sama hefur formaður Verkalýðsráðs Sjálfstæðisflokksins gert, eins og Viljinn greindi frá í gær. Bætti hann því við, að kosti það stjórnarslit að leysa þennan vanda, þá sé það gjaldið fyrir lausn hans.

Um þessa stöðu segir Bergþór Ólason, formaður þingflokks Miðflokksins, í aðsendri grein í Mogga dagsins:

„Þingflokkar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks eru því í þeirri snúnu stöðu að þingmeirihluti er tryggður, vilji þeir þiggja stuðninginn, til að keyra í gegn aðgerðir sem geta bætt stöðu orkumála. Vandinn er sá að eins og í hvalveiðimálinu forðum, þá eru orð ódýr, flokkarnir vilja áfram halda í hönd VG, sem virðist hafa neitunarvald í öllum málum er varða aukna verðmætasköpun í samfélaginu.

Þegar öllu er á botninn hvolft eru það því þingflokkar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sem sitja uppi með skömmina á meðan staðan breytist ekki, vinstri grænir eru jú bara að fylgja pólitískri stefnu sinni og eru að ná árangri.“

Þetta er auðvitað hverju orði sannara.