„Ég ætla ekkert að vera að tala í kringum þetta. Já, ég held að það sé algjörlega óhjákvæmilegt að virkja meira. Okkur vantar meiri endurnýjanlega orku,“ segir Lenya Rún Taha Karim, varaþingmaður Pírata, í nýjasta þætti Dagmála á mbl.is í dag.
Þetta er heilmikil yfirlýsing. Loksins sjá Píratar ljósið í virkjunarmálum. Það er grænt að nýta endurnýjanlegar auðlindir og ef eitthvað er að marka tal um orkuskiptin, þá þarf meiri orku. Að ekki sé talað um sé ætlunin að Ísland bjóði upp á samkeppnishæf lífskjör og umhverfi fyrir fyrirtæki á næstu árum.
Það er líka rétt hjá varaþingmanni Pírata, að hægt sé að vernda náttúruna á sama tíma. „Þetta þýðir ekki að við þurfum að botnvirkja Ísland í drasl. Ég held að við þurfum líka að leggja áherslu á að forgangsraða orkunni, sjá hvert orkan er að fara og nýta hana vel,“ segir hún og skal hér tekið undir hvert orð.
En hjá stjórnarflokknum Vinstri grænum eru enn öll ljós slökkt og því hefur ekki verið virkjað um langt skeið og allt stopp og enginn árangur í þeim efnum. Og það hafa Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkur látið yfir sig ganga, þótt margir þingmanna þessara flokka reiti hár sitt og skegg yfir stöðunni.
Hversu lengi enn á flokkur með lítið fylgi að hafa svo mikil völd?