Píratar taka þátt í leyndarhjúpnum í Orkuveitunni

Rúmir þrír mánuðir eru nú liðnir síðan fundargerð stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur var síðast lögð fyrir borgarráð, þ.e. 8. júní. Var þar um að ræða fundargerð stjórnar OR frá 22. maí og er það jafnframt síðasta fundargerð, sem birt hefur verið á heimasíðu félagsins. Hefur stjórn félagsins þó fundað a.m.k. þrisvar sinnum frá því í maí.

Þetta segir Kjartan Magnússon borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins. Þetta gengur í berhögg við reglur stjórnar Orkuveitunnar, en í febrúar 2008 samþykkti stjórn Orkuveitu Reykjavíkur tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að fundargerðir stjórnar félagsins yrðu gerðar opinberar og birtar á heimasíðu fyrirtækisins.

Kjartan segir að því verklagi hafi verið fylgt á undanförnum árum, en nú virðist hafa orðið breyting þar á. Hann lagði fram spurningar á fundi borgarráðs á dögunum af þessu tilefni, en þær eru:

  1. Af hverju hefur verið brotið gegn skýrri samþykkt stjórnar Orkuveitunnar um að fundargerðir hennar skuli birtar sem og gegn ákvæði í eigendastefnu um að OR skuli vera til fyrirmyndar um upplýsingagjöf til almennings?
  2. Hver ber ábyrgð á þessari ákvörðun?
  3. Hefur stjórn Orkuveitunnar tekið einhverjar ákvarðanir undanfarna þrjá mánuði, sem ekki er talið æskilegt að almenningur, borgarfulltrúar og fjölmiðlar fái vitneskju um?
  4. Óskað er eftir því að bætt verði úr þessari upplýsingatregðu með því að umræddar fundargerðir verði tafarlaust lagðar fyrir borgarráð og þær jafnframt birtar á heimasíðu Orkuveitunnar eins og löng hefð er fyrir.

Áhugavert verður að sjá svörin, þegar þau birtast. Án efa verður vísað til viðkvæmra viðskiptaupplýsinga, en þá er þess að geta að Píratar, sem eiga aðild að meirihlutanum í borginni, og bera því pólitíska ábyrgð á stjórn Orkuveitunnar hafa barist fyrir auknu gegnsæi og stjórnsýslu á undanförnum árum. Fulltrúar flokksins hafa jafnvel lekið minnisblöðum í þessu skyni.

En þegar þeir sjálfir eru við völd, negla þeir fyrir glugga og loka fyrir aðgengi að upplýsingum. Hvaða ákvarðanir skyldi stjórn Orkuveitunnar hafa tekið undanfarnar vikur og mánuði, sem almenningur hefur ekki hugmynd um?