Planið hjá Loga er að ganga upp

Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar.

Yfirlýsing frá Rósu Björk Brynjólfsdóttur, fyrrverandi þingmanni Vinstri grænna, um að hún væri búin að ganga til liðs við Þingflokk Samfylkingarinnar eftir að hafa verið óháður þingmaður í þrjá mánuði, kom engum á óvart sem fylgist með íslenskum stjórnmálum.

Tildragelsi Rósu og Samfylkingarinnar hefur verið eitt verst geymda leyndarmál íslenskra stjórnmála um langt skeið, eða allt frá því hún lýsti því yfir í upphafi kjörtímabilsins, að hún styddi ekki ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur og væri mótfallin samstarfi VG við Sjálfstæðisflokk og Framsókn.

„Pólitískar áherslur mínar og Samfylkingarinnar eru nátengdar með mikilvægi á aukinn jöfnuð í samfélaginu þar sem allir geta notið sín á eigin forsendum, burtséð frá stétt eða stöðu en líka á frið og sjálfbærni og opið, framsækið og fjölbreytt samfélag með áherslu á virka fjölþætta utanríkisstefnu,“ sagði Rósa Björk í yfirlýsingu til fjölmiðla nú fyrir hádegi þar sem hún vísar einnig til þess að Samfylkingin hafi að undanförnu lagt mun meiri og skýrari þunga á loftlagsmálin, og umhverfismálin en áður og lagt fram góða áætlun um græna viðspyrnu út úr Covid-19 kreppunni.

„Það gerir útslagið fyrir mig þegar kemur að því að taka þessa ákvörðun um að ganga í Samfylkinguna og þingflokk hennar. Ég hlakka mjög mikið til að taka þátt í starfi Samfylkingarinnar og að leggja mitt á vogarskálarnar til að bæta íslenskt samfélag,“ bætti hún við.

Rósa Björk Brynjólfsdóttir fv þingmaður Vinstri grænna, hér í umræðum á Evrópuþinginu.

Á göngum þinghússins er hvíslað að koma Rósu á þessum tímapunkti sé engin tilviljun, ekki frekar en að þessa dagana berast ýmsar tilkynningar frá þekktu fólki af vinstri kantinum um að það hafi gengið til liðs við flokkinn. Nýjasta dæmið er Kristrún Frostadóttir, aðalhagfræðingur Kviku. Þetta er sagt gert að undirlagi formannsins Loga Einarssonar sem lagt hefur áherslu á að stórefla flokksstarfið og skrifstofuna og gengið það prýðilega undir styrkri stjórn fréttakonunnar fyrrverandi, Karenar Kjartansdóttur.

Logi telur möguleika Samfylkingarinnar mikla í komandi kosningum. Hann telur réttilega að Vinstri grænir mæti særðir úr stjórnarsamstarfinu inn í þá kosningabaráttu, enda þótt pólitísk staða Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra sé sterk og hún njóti mikilla persónuvinsælda. Bakland hennar hefur verið fremur óhamingjusamt í hjónabandinu með Bjarna Benediktssyni og Sigurði Inga Jóhannssyni frá byrjun og það hefur ekkert breyst þótt liðið hafi á kjörtímabilið. Sterkasti kjarni flokksins, þar sem flestir eru í vel launuðum störfum hjá ríkinu, hefur á hinn bóginn varið stjórnina og verk hennar með kjafti og klóm.

Logi hefur hins vegar verið þeirrar skoðunar að endurnýjunar sé þörf í þingliði flokksins og vill hreinsa til. Á fésbókinni í dag segir hann að það sé mikill hvalreki fyrir Samfylkinguna að Rósa Björk sé gengin til liðs við flokkinn. „Ég hef kynnst henni ágætlega frá því við settumst á þing fyrir fjórum árum og álitið mitt á henni hefur vaxið stöðugt á þeim tíma. Hún er án efa einn sterkasti þingmaðurinn sem á sæti á Alþingi í dag og í loftlags- og utanríkismálum standast henni fáir ef einhver snúning. Vertu velkominn til okkar kæra vinkona.“