„Eitt er þó farið að fara aðeins í taugarnar á mér varðandi skaupið, svona almennt.
Þetta er stigvaxandi óþreyja. Ég ætla að losa mig við hana með því að henda henni hér með út í kosmosið. Mér finnst pólitíkinni orðið smá ofaukið í skaupum. Hún getur verið sundrandi og leiðinleg,“ segir Guðmundur Steingrímsson, fv. alþingismaður og stofnandi Bjartrar framtíðar.
Guðmundur, sem hefur meðal annars komið að handritagerð fyrir áramótaskaupið, segir í reglulegum pistli sínum í Fréttablaðinu í dag, að hlutverk handritshöfundarins sé bæði erfitt og vanþakklát.
„Ég veit ekki hvenær það gerðist, en mér finnst eins og það hafi verið skaup upp úr aldamótum sem olli straumhvörfum í þessum efnum. Það varð allt í einu lenska að vinstri menn gæfu hægri mönnum á baukinn, og jafnvel að höfundar og leikstjórar settu sig á háan hest í samfélagsmálum.
Afleiðingin er sú að fólk er farið að taka eftir því að Garðbæingar upp til hópa eru úti að sprengja flugelda á meðan skaupið er. Þeir eru hættir að horfa. Það er ekki gott. Garðbæingar eru líka manneskjur,“ segir Guðmundur.