Pólitísk rétthugsun er ógn við frjálsa hugsun

Arnar Þór Jónsson fv héraðsdómari og nú varaþingmaður. / RAX.

Þótt því fari fjarri, sé miðað við nýjustu skoðanakannanir, að dómarinn Arnar Þór Jónsson sé á leið á þing fyrir Sjálfstæðisflokkinn, þar sem hann situr í 5. sæti framboðslista flokksins í Kraganum, er vert að gefa sjónarmiðum hans gaum. Grein hans í Fréttablaðinu í dag er t.d. allrar athygli verð, ekki síst kaflinn um frelsi til að hafa ólíkar skoðanir og móðgunargirni nútímans.

„Pólitísk rétthugsun er ein helsta ógnin við frjálsa hugsun. Rétthugsunin hefur tekið á sig ýmsar myndir í tímans rás, en eitt aðaleinkenni hennar er algjör skortur á skopskyni, bókstafshyggja og eftirlit með því að hvorki ritað né talað mál endurspegli „hugsanaglæpi“, villutrú eða falskenningar,“ segir Arnar Þór í greininni og bendir á að þegar hjarðhegðun sé beitt til að afmarka hvað teljist skynsamlegt, þá sé skipulegri hugsun, staðreyndum og rökræðu hent út um gluggann.

„Valdboðsstjórn þrífst á ótta og þá er nauðsynlegt að benda á, finna eða framleiða ógn sem vekur nægilega sterk viðbrögð. Valdboðsmenn fá mestan byr ef unnt er að sýna fram á að ógnin sé yfirvofandi og kalli á samstöðu. Stjórnmálamenn sem nýta sér þessa tækni ofureinfalda flókin viðfangsefni og veita einföld svör við flóknum vandamálum.

Með því að berja niður frumkvæði, efa og sjálfstæða hugsun er reynt að samræma hegðun fólks og berjast gegn einstaklingshyggju með það að markmiði að framkalla menningarlega og pólitíska einsleitni. Í því samhengi getur verið hjálplegt að vísa stöðugt til þess að þegnarnir beri skyldur gagnvart ríkinu og hvetja fólk til að forðast áhættu. Afleiðing slíkrar stefnu birtist í vitsmunalegri stöðnun, sem og skorti á hugmyndafræðilegri fjölbreytni.

Í slíku umhverfi búa sannir heimspekingar og frjóir hugsuðir við tortryggni, ógn og jafnvel ofsóknir fyrir að „spilla æskulýðnum“ o.s.frv. Hagsmunasamtökum, fjölmiðlum, ríkisstofnunum o.fl. má beita til pólitískrar og vitsmunalegrar bælingar. Þetta er t.d. gert með því að ráðast að, hæða og útskúfa fólki sem vogar sér að hugsa út fyrir hinn leyfilega kassa,“ segir hann.

Og dómarinn bætir við:

„Óþarft er að fjölyrða um þann skaða sem framangreind nálgun veldur gagnvart lýðræðislegri umræðu. Þegar hjarðhegðun er beitt til að afmarka hvað telst skynsamlegt, þá er skipulegri hugsun, staðreyndum og rökræðu hent út um gluggann. Í slíku umhverfi verða til hvatar þar sem harðlínunálgun er verðlaunuð, en hinir úthrópaðir sem voga sér að gerast málsvarar klassískra frjálslyndra sjónarmiða, þar á meðal um tjáningarfrelsi, um sakleysi þar til sekt er sönnuð og um réttláta málsmeðferð.

Augljóslega skaðar þetta pólitíska umræðu. Ef menn ímynda sér að auka megi farsæld og almenn lífsgæði með því að ala á tortryggni, öfund og óvild, þá er það villuljós. Það er andlýðræðislegt að standa gegn heilbrigðum skoðanaskiptum með því að ráðast á andmælendur sína, afbaka málflutning þeirra, fara með rangfærslur, saka menn um illvilja, geðveiki o.s.frv.

Það er heldur ekki heiðarlegt að túlka orð andmælenda sinna á versta veg, t.d. með því leita að tilefni til að móðgast og reiðast. Farsælli leið er að líta á hvert annað sem samverkamenn í frelsisbaráttunni, sem hlýtur að miðast að því að fá að lifa sem frjálsir menn undir stjórn valdhafa sem við sjálf höfum kosið.“

Undir þessi orð skal tekið.