Pólitísk veðurspá: Stormur í aðsigi

Bjarni Benediktsson hættir brátt sem fjármálaráðherra / Viljinn: Rúnar Gunnarsson.

Innan Sjálfstæðisflokksins er mikil og vaxandi reiði með ríkisstjórnarsamstarfið. Þingmenn flokksins og gamalreyndir erindrekar rekast á vegg þegar þeir reyna að verja gjörðir eða öllu heldur aðgerðaleysi stjórnarinnar í mörgum málum hvarvetna þar sem fólk kemur saman og umræðan hefur þróast á verri veg undanfarnar vikur í takt við minnkandi fylgi Sjálfstæðisflokksins og auknar óvinsældir ríkisstjórnarinnar.

Heimildamenn Viljans segja að tólfunum sé kastað og Bjarni Benediktsson, formaður flokksins og fjármálaráðherra, muni ekki ná enn og aftur að hemja reiði flokksmanna í haust. Til þess séu vandræðin orðin of mikil og þolinmæðin of lítil.

Flokkurinn eigi von á útreið í næstu kosningum, ef hann haldi áfram þátttöku í ríkisstjórn sem sé í andstöðu við þjóðina og helstu stefnumál sín.

„Það er tvennt í stöðunni,“ segir áhrifamaður í Sjálfstæðisflokknum sem vel þekkir til. „Annað hvort setjum við Vinstri grænum stólinn fyrir dyrnar og knýjum á um úrbætur þar sem þeirra er augljóslega þörf og þau kyngja því, eða að annarra valkosta verður leitað við ríkisstjórnarborðið meðan kosningar eru undirbúnar.“

Hermt er að óformlegar þreifingar hafi átt sér stað um myndun þingmeirihluta án þátttöku Vinstri grænna. Hefur þar meðal annars verið horft til Flokks fólksins og Miðflokksins.

„Bjarni hefur verið talsmaður þess að halda áfram, en hann er farinn að skynja skýrt ákall um breytingar. Eftir verslunarmannahelgi fer af stað atburðarás sem getur bara endað á einn veg,“ bætir heimildamaður Viljans við.