„Pólitískt siðferði er á afskaplega lágu plani og þess vegna eru þingmenn vanhæfir til að dæma siðferði kollega sinna.“
Þetta segir Jón Ragnar Ríkharðsson, sjómaður og formaður verkalýðsráðs Sjálfstæðisflokksins.
Hann fjallar um stjórnmálaástandið í færslu á fésbók og segir:
„Allir (jafnvel óhugnalegustu glæpamenn) eiga rétt á sanngjarnri málsmeðferð – þetta ætti stofnun sem fer með löggjafavaldið að vita.
Þingmennirnir sem sátu að sumbli á Klausturbarnum hafa sömu réttindi og annað fólk. Æðstu lög landsins heimila þeim þingsetu fram að næstu kosningum og sem betur fer eru þau æðri pólitískum metnaði misviturra stjórnmálamanna.
Þingmenn hafa vissulega rétt á að kæra sig ekkert um þessa kollega sína á þingi eins og landsmenn allir. En það er bara skoðun og skoðanir hafa ekki ígildi laga.
Kjósi þingheimur að sýna félögum sínum lítilsvirðingu gæti það túlkast einelti og það er bannað á þingi.
Ef það er forgangsmál þingsins að skipa marklausa siðanefnd þá getur ekki verið mikið að á Íslandi.“