Pólitískt stöðumat: Hvað gerist eftir helgi?

Skjáskot/ruv.is

Kallinn talar við marga sem fylgjast vel með á sviði stjórnmálanna. Ekki fer á milli mála að ný könnun Gallup, þar sem VG mældist með minnsta fylgi frá stofnun og stuðningur við ríkisstjórnina minnkar enn, hefur endurvakið skjálfta í stjórnarsamstarfinu eftir hléið sem varð á meðan jörð skalf undir Grindavík.

Óvissa virðist ríkja um hvað taki við þegar þing kemur aftur saman eftir helgi. Ríkisstjórnin náði aðeins að afgreiða lítinn hluta boðaðra þingmála fyrir haustþingið á tilsettum tíma. Fjárlagaumræðunni var auk þess frestað en er nú komin á dagskrá næsta þriðjudag. Þar liggja fjölmörg ágreiningsmál, sem tekist er hart um að tjaldabaki, en auk þeirra er listi hinna frestuðu vandræðamála stjórnarinnar langur.

Þar má nefna orkumálin, sölu Íslandsbanka, sameiningu héraðsdómstóla, opinbert hlutafélag um uppbyggingu og rekstur samgöngumannvirkja og mál sem vekja e.t.v. minni athygli en nokkrir stjórnarliðar hafa sterka skoðun á. Það á t.d. við um áform matvælaráðherra um að færa veiðar á grásleppu undir kvótakerfið.

VG hefur miklar efasemdir um breytingar á lögreglulögum og eins og fram kom eftir fræga ferð stjórnarflokkanna á Þingvelli eru málefni hælisleitenda óleyst milli flokkanna. Sjálfstæðismenn velta hins vegar í auknum mæli fyrir sér hvort þeir eigi að láta hafa sig í að fjölga stofnunum eftir óskum samstarfsflokkanna, t.d. með nýrri mannréttindastofnun. Fyrrverandi þingmaður flokksins segist telja slíka stofnun fyrst og fremst hugsaða sem atvinnuúrræði fyrir Vinstri græna.

Ættu fyrir löngu að hafa hætt að bjóða sér þetta

Svo eru það Evrópumálin. Í baklandi Sjálfstæðisflokksins er kurr yfir því að nú standi til að þingmenn flokksins skuli fara fremstir í flokki við að tala fyrir svo kallaðri „bókun 35” sem gefur aðsendri löggjöf forgang umfram þá íslensku og að nú skuli eiga að keyra í gegn skattahækkanir á flugferðir og skipaflutninga.

Annar fyrrverandi þingmaður flokksins sagðist ekki skilja í því að ráðherrar flokksins tækju ítrekað að sér að keyra í gegn nýja skattlagningu á almenning, ekki aðeins fyrir ríkissjóð heldur fyrir ESB líka.

Handan við hornið bíða svo erfið mál á borð við kjarasamninga, hvalveiðar og ólíka sýn á alþjóðamálin.

Viðmælandi kallsins sem áður var formaður í hverfafélagi Sjálfstæðisflokksins segir að flokkurinn ætti að vera löngu hættur að láta bjóða sér þetta ástand, en það flæki þó málið að ráðherrar flokksins hafi í mörgum tilvikum tekið að sér að leiða málin sem eru flokksmönnum síst að skapi.

Undirgefni við smáflokk

Í ljósi þess að fylgi VG er komið í sögulegt lágmark telja margir sjálfstæðismenn að tímabært sé að láta af undirgefni við smáflokk af gagnstæðum enda pólitíska litrófsins. 

Maður með langa reynslu úr vinstrihreyfingunni, sem fylgdi þó ekki yfir í VG á sínum tíma, minnir þó á að Sjálfstæðismenn hafi ekki úr háum söðli að detta enda eigi hann það sameiginlegt með VG að hafa aldrei mælst lægri í skoðanakönnunum Gallup. 

Athugun kallsins leiddi í ljós að það sé rétt þótt flokkurinn hafi þó aðeins jafnað fyrra lágmark (19,8%) en ekki farið niður fyrir það.

Spurningin er því e.t.v. sú hvort stjórnarflokkarnir meti það sem svo að vænlegast sé að stökkva fyrstur frá borði eða hvort niðurstaðan veriði sú að „sælt sé sameiginlegt skipsbrot”.

Kallinn bíður spenntur eftir því að fylgjast með framvindunni í stjórnmálunum og hefur sett poppvél efst á jólagjafalistann…