Annað ráðuneyti Bjarna Benediktssonar er ekki orðið margra daga gamalt þegar vantrausttillaga er lögð fram á ríkisstjórnina í heild sinni. Í ákafa sínum hefur Inga Sæland leikið af sér með því að þjappa saman stjórnarliðinu fyrir atkvæðagreiðslu kvöldsins; þar mun Bjarni Benediktsson forsætisráðherra undirstrika þingmeirihluta samstarfsins með afgerandi hætti og hvorki Flokkur fólksins né Píratar munu hafa nokkuð upp úr krafsinu. Skiljanlegt er að Viðreisn, Miðflokkurinn og Samfylkingin hafi ekki viljað vera meðflutningsmenn.
Afleikurinn er eiginlega töluvert afrek, því tilgangurinn var væntanlega að afhjúpa það sem við öllum blasir, að ríkisstjórnin er öll út og suður og jafnlangt og áður frá því að koma sér saman um mikilvæg mál. En viku eftir að nýtt samstarf var handsalað er enginn stjórnarþingmaður að fara að greiða atkvæði með vantrausti á stjórnina í heild sinni. Þess í stað fáum við kurteislegar ræður um mikilvæg verkefni framundan, baráttuna gegn verðbólgunni og svo frv.
Á Alþingi er eitt versta geymda leyndarmálið, að allir ætli að reyna að haga sér almennilega næstu vikurnar, eða framyfir forsetakosningarnar 1. júní nk. Sviðsljósið mun fljótlega færast nær alfarið yfir á forsetaframbjóðendur og baráttu þeirra, sem fer líflega af stað.
Enginn verður þessari hvíld fegnari en forsætisráðherrann Bjarni Benediktsson sem hóf störf í talsverðum mótvindi og brattri brekku. Hann hlýtur að hugsa hlýlega til frú Sæland í kvöld, þegar hún afhendir honum að eigin frumkvæði traustsyfirlýsingu á silfurfæti. Það má enda gleðjast yfir minna…