Prestur sakar formann velferðarnefndar um fordóma í garð trúaðs fólks

Sr. Örn Bárður Jónsson sakar Halldóru Mogensen, þingmann Pírata og formann velferðarnefndar Alþingis, um ótrúlega fordóma í garð trúaðs fólks og hún sé þannig vanhæf til að sitja á þjóðþinginu.

Tilefnið eru umsagnir sem þingnefndinni hafa borist vegna frumvarps heilbrigðisráðherra um breytingar á lögum um fóstureyðingar, eða það sem kallast nú þungunarrof.

Halldóra hefur lýst því í fréttum, að henni finnist óeðlilegt að leitað sé umsagnar hjá trúar- og lífsskoðunarfélögum. „Mér finnst heilbrigðismál kvenna og ákvörðunarréttur þeirra ekki eiga heima í höndum trúfélaga og lífsskoðunarfélaga,“ sagði hún í samtali við Fréttablaðið í liðinni viku.

Sr. Örn Bárður, sem var lengi prestur í Neskirkju, en sinnir nú safnaðarstarfi í Noregi, undrast framgöngu formanns nefndarinnar í garð trúaðra. Hann veltir því fyrir sér hvort henni væri sætt á þingi með slíka fordóma gagnvart fötluðum, samkynhneigðum, eða útlendingum, svo aðeins örfáar samlíkingar séu nefndar.

„Hvers konar lýðræði er það sem vill útiloka skoðanskipti? Tek það fram að ég skrifa ekki undir hvað sem er sem kemur frá trúar- eða lífsskoðunarfélögum en mér finnst að allir eigi rétt á að fá að tjá sig. Að ætla sér að útiloka slíkar raddir tel ég stafa af fordómum, í það minnsta ekki af víðsýni,“ segir presturinn.