„Vandinn er þegar háttsettur hópur embættismanna, sem eru í raun æviráðnir og lúta stjórn heimaríkra yfirmanna úr sínum hópi, er kominn á skjön við þjóðarviljann og er sama um það,“ segir Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins og fv. forsætisráðherra, í Reykjavíkurbréfi blaðsins í dag.
Hann segir alþekkt, að í sínum hópi tala þessir raunverulegu valdamenn um „okkur“ og „þá sem koma og fara“ og eiga þá við stjórnmálamennina sem hafa varla lært á sín ráðuneyti þegar þeir eru farnir annað. Flestir endi þeir sem léttavigtarmenn í sínum ráðuneytum og í versta falli sem sendlar þeirra sem í orði kveðnu eiga að þjónusta þá.
„Úr utanríkisráðuneytinu eru mörg nýleg dæmi. Þáverandi ríkisstjórn kokgleypti dellubréf þar sem aðildarumsókn Jóhönnustjórnarinnar að ESB var að sögn embættismanna afturkölluð. Það sýnir hvað menn eru bíræfnir þegar þeir senda ráðherra sinn með slíkt bréf inn á fund ríkisstjórnar. En þeim til láns þá virtist ekki neinn læs maður vera staddur þar á fundi þegar svo mikilvægt mál var til afgreiðslu,“ bætir hann við.
Og um innleiðingu þriðja orkupakkans, segir forsætisráðherrann fyrrverandi:
„Nú tala ráðherrar um mál dagsins eins og páfagaukar um „fyrirvara sem breyti málinu“.
En í ljós kemur að átt er við hjal úr fundargerð þar sem flest er haft eftir íslensku fundarmönnunum og nafngreindur kommissar staðfestir að hann hafi verið viðstaddur hjalið. Ekki vottur af lagalegri þýðingu þar og ekki heldur pólitískri sem hald væri í og væri það síðara svo sem marklaust aukaatriði.
Á sama tíma er vitað en ekki viðurkennt að ríkisstjórnin er með leynd að hjakka á stjórnarskrá landsins til að gera þjóðina enn varnarlausari en ella gagnvart breytingum á henni. Þetta er einhver furðuarfleifð frá Jóhönnustjórninni. Ætlar þetta aldrei að hætta?“