Ráðvilltur vinstri maður undrast umræðuna: Með hvoru ríkinu á ég að taka afstöðu?

Dr. Haukur Arnþórsson

„Af því að ég hef eitthvað annað samband milli sannleiksástar – réttlætis – og tilfinninga – en mörg skoðasystkin mín í pólitík – sem kemur einstaka sinum í ljós – þarf ég leiðbeiningu. Viljiði nú svara mér skynsamlega með rökum,“ segir dr. Haukur Arnþórsson stjórnsýslufræðingur um hina hörmulegu stöðu fyrir botni Miðjarðarhafs.

Gefum honum orðið:

„Ef ríki A sem er með her, lætur herinn ráðast á almenna borgara í ríki B (ekki á her þess ríkis) og slátrar nokkur þúsundum þeirra (stríðsglæpur) – tekur síðan mörg hundruð almennra borgara í ríki B og hótar að drepa þá ef það ríki leitar hefnda (líka stríðsglæpur) – lætur herinn sinn síðan heyja stríð gegn B frá sjúkrahúsum og öðrum stofnunum þar sem almenningur er – og hefur þannig sjúka og saklausa, ekki síst börn, sem skjöld (stríðsglæpur) – með hvoru ríkinu á ég þá að taka afstöðu?

Höfum það líka í huga að ríki A er ekki lýðræðisríki í okkar skilningi. Það styður ekki mannréttindi og kvenréttindi og fjöldi flóttamanna hefur komið frá því til Íslands og leitað hælis, ekki síst samkynhneigðir, en ég hélt að við vinstri sinnaða fólkið styddum baráttu kvenna og samkynhneigðra fyrir jafnrétti hvar sem er í heiminum.

Þá má bæta því við að stjórnvöld í ríki A efla ekki hag lands síns en halda íbúum sínum í neyð og fátækt – af því að öll pólitík þeirra gengur út á að ná sér niður á ríki B með endalausu hatri sem færist milli kynslóða. Stjórnvöldin búa ekki í landi sínu og deila ekki kjörum með þjóð sinni.

Höfum það líka í huga að ríki B er nútímalegt vestrænt ríki með mannréttindi og virkt lýðræði – þótt svæsin hægri stjórn ríki þar nú um stundir. Líka hitt, að við ásamt öllum vestrænum ríkjum studdum stofnun þess og Íslendingar voru fyrsta þjóðin til að viðurkenna tilvist þess. Þessu til viðbótar kemur að enn í dag styðja nánast öll evrópsk ríki tilveru og sjálfsvarnarbaráttu ríkis B – og banna jafnvel mótmæli gegn því. Við tökum auðvitað rökum sem koma frá nágrannaríkjunum.

Að öllu þessu sögðu spyr ég vini mína og vinstri sinnuð skoðanasystkini – af hverju á ég að fara niður á Austurvöll og hrópa „Þjóðarmorð, þjóðarmorð“ og eiga þá við að árásarríkið, ríki A, – ríkið sem hóf átökin með svæsnum stríðsglæpum – sé mér hugleikið sem réttlátt ríki og ég telji að hefndaraðgerðir ríkis B sé tilefnislaust þjóðarmorð?

Er hægt að tala um sjálfsmorð þjóðar?“