Davíð Oddsson ritstjóri Morgunblaðsins og fv. forsætisráðherra er enginn aðdáandi Evrópusambandsins og í Staksteinum blaðsins í gær, lýsti hann útgöngu Breta úr sambandinu, sem verður nú í lok mánaðarins, með svofelldum hætti:
„Bretadrottning hefur staðfest lög um úrsögn ríkisins úr ESB. Leiðin þangað var torsótt og jafnvel talin ófær með öllu, þótt vilji þjóðarinnar lægi fyrir. Fimmtaherdeildin gerði allt sem hún mátti til að eyðileggja niðurstöðu þjóðaratkvæðisins.
Kjörtímabil Macrons, forseta Frakklands, er hálfnað. Hann stendur í slag við almenning sem að frönskum hætti heldur út á strætin. Utan frá séð virðast tillögur forsetans vera eðlilegar eigi samkeppnisstaða Frakklands að ganga upp. En forsetanum hefur ekki tekist að sannfæra sitt fólk. Hrokalegir tilburðir hans í upphafi forsetaferilsins hjálpuðu ekki. Þótt hann hafi reynt að breyta um stíl situr fyrri hegðun í fólkinu. Nú segir Macron að varnarbandalagið NATO sé „heiladautt!“
Hann bætir því við, að í þriðja stærsta ríki ESB, Ítalíu, hafi leiðtogi ríkisstjórnarinnar gefist upp og staðan henni því erfið.
![](https://viljinn.is/wp-content/uploads/2019/07/borisleave-1024x576.jpeg)
„Uppnám er í stjórnmálum í Þýskalandi. Dagar kanslarans í embætti eru í raun taldir, en Merkel dregur að færa þá niðurstöðu til bókar. Kanslarinn er á leið í heimsókn til Tyrklands. Tyrkir ræða opinberlega um það skömmu fyrir komu gestsins að ESB hafi alls ekki staðið við skuldbindingar sínar gagnvart Tyrklandi, sem heldur milljónum flóttamanna innan gaddavírsgirðinga að ósk ESB, sem lofaði að greiða Tyrklandi milljarða evra fyrir vikið. Við það hefur ekki verið staðið, segir Erdogan.
Á Spáni hefur veik ríkisstjórn á vinstrikanti tekið við eftir röð kosninga og fyrstu skref hennar lofa ekki góðu.
Óskaplega hljóta Elísabet II. og Boris Johnson og landar þeirra að vera ánægð að mikilvægasta áfanga útgöngunnar sé náð og brátt megi byrja að moka reglugerðafargani í ruslafötuna í þúsundatali öllum til upplyftingar.“