Reglur um nánd og takmarkanir á hópum þurfa að gilda fram á árið 2022

Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómalækninga Landspítala og klínískur prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands, vitnar í leiðara nýjasta heftis Læknablaðsins, í vísindagrein sem birtist á dögunum í tímaritinu Science, þar sem er leitast við að svara spurningum um framhaldið eftir að heimsfaraldursástandi vegna Covid-19 linnir.

„Höfundarnir nota áætlanir um árstíðasveiflur, mótefnasvar og víxlverkun mótefnasvara milli beta-kórónaveiranna OC43 og HKU1 og SARS-CoV-2 (af sömu ættkvísl) til að búa til spálíkan um smit SARS- CoV-2 í bandaríska samfélaginu.

Höfundarnir gefa sér við gerð spálíkansins að af afloknum heimsfaraldri verði veiran að öllum líkindum virk í samfélögum (í tempruðum löndum) að vetrarlagi.

Már Kristjánsson yfirlæknir og prófessor.

Þeir spá því að núverandi fyrirkomulag um breyttar venjur fólks í samfélaginu (reglur um nánd, hópa og svo framvegis) muni þurfa að vera til staðar fram á árið 2022 að gefnum forsendum spálíkansins.

Auðvitað mun það ekki gilda um alla því á þessu tímabili munu ávallt einhverjir smitast og verða ónæmir. Það er hins vegar ekki vitað hversu lengi mótefni þeirra eru virk til að vernda gegn SARS-CoV-2 sýkingu síðar né með hvaða hætti ætti að auðkenna þá,“ segir yfirlæknirinn í leiðaranum.