Hafliði Breiðfjörð, ritstjóri fótboltasíðunnar fotbolti.net setur fram hugleiðingu á fésbókinni, sem fyllsta ástæða er til að vekja athygli á.
Undir yfirskriftinni: Af hverju erum við að þessu?, birtir Hafliði tvær myndir og segir:
„Á efri myndinni má sjá fótboltaleik í vikunni. Takmörkun um 200 áhorfendur á sama svæði. Allir sitja stilltir og blandast lítið við aðra áhorfendur. Yfirvöld banna stærri samkomur en Íslandsmótið var að hefjast. Allskonar vandamál skapast vegna þessara takmarkana.
Neðri myndin sýnir samstöðufund á Austurvelli. Sömu yfirvöld samþykktu fundinn, 3500 manns komu saman og gengu um allt og blönduðu geði við hvort annað. Engin vandamál enda virðast ekki vera nein smit í samfélaginu.“
Þetta segir ritstjórinn vera ósanngjarnt og sjálfsagt sé að gera þá kröfu að jafnt gangi yfir alla. Annað hvort með því að fella úr gildi fjöldatakmarkanir eða rýmka þær verulega.
„Þegar settar eru of stífar reglur af ástæðulausu má alveg spyrja spurningarinnar ‘Afhverju erum við að þessu?’ Ekki síst þegar inn í þetta blandast óréttlæti,“ segir Hafliði ennfremur. Undir það skal tekið.
Þessu þurfa Víðir yfirlögregluþjónn og Þórólfur sóttvarnalæknir að svara sem fyrst.