Ríkisstjórnin er ábyrg fyrir þessari stöðu

„Nú eru 10 ár liðin síðan Ögmundur Jónasson hætti sem dómsmálaráðherra. Þar áður þarf að leita til ársins 1991 til að finna kjörtímabil þar sem einhver annar flokkur en Sjálfstæðisflokkur var með það ráðuneyti. Það er því erfiðara að finna málaflokk þar sem ábyrgðin er skýrari heldur en málefni útlendinga. Þau eru í þeim farvegi sem þau eru, góðum eða slæmum, vegna þess hvernig Sjálfstæðisflokkurinn hefur haldið á þeim. Ekki einhver annar.“

Þetta skrifar Pawel Bartoszek, fyrrverandi þingmaður og borgarfulltrúi Viðreisnar, á fésbókina í tilefni af framgöngu Guðrúnar Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra og gagnrýni margra þingmanna Sjálfstæðisflokksins á stöðuna í málefnum hælisleitenda. Pawel var hér áður fyrr áberandi í svonefndum Deigluhópi innan Sjálfstæðisflokksins, áhrifamikilli hugveitu sem nokkur söknuður er að.

„Nú mætti halda, á ummælum penna og fótgönguliða flokksins að XD hafi loksins hrifsað til sín dómsmálaráðuneytinu úr höndum einhverra aktivista. Voru Sigga Andersen, Áslaug Arna eða Jón Gunnarsson öll í vasanum á No Borders samtökunum? Þvílíkur og annar eins ábyrgðaflótti og vesælingsháttur.

Og áður en menn benda út og suður á aðra flokka og félagasamtök, mætti frekar krefjast að stjórnin sjálf hefði eitthvað plan um næstu misseri. Það dylst engum að forsætisráðherra, félagsmálaráðherra og dómsmálaráðherra hafa talað þvert á annað um hvað það sjá fyrir sér að gerist. Og ef að hraungjótur, húsasund og gistiskýli byrja að fyllast af heimilislausu fólki þá verður það heldur ekki skrifað á einhver No Borders samtök, sjálfboðaliða eða pólitíska andstæðinga. Heldur stjórn þessa lands,“ segir Pawel ennfremur.