Líf ríkisstjórnarinnar hangir á bláþræði eftir álit Umboðsmanns Alþingis sem birt var á föstudag um framgöngu Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra í hvalveiðimálinu. Stjórnarandstaðan, eða amk hluti hennar, mun leggja fram vantrausttillögu á hana um leið og þing kemur saman eftir jólaleyfi og alls óvíst er hvort þingmenn Sjálfstæðisflokksins muni verja hana falli í þeirri atkvæðagreiðslu, samkvæmt heimildum Viljans.
Þingmenn Sjálfstæðisflokksins, sem Viljinn hefur rætt við, segja stöðu Svandísar og ríkisstjórnarinnar mjög veika. Þó sé mikilvægt að ekki raskist gerð kjarasamninga, sem kenndir hafa verið við nýja þjóðarsátt. Gildandi samningar á almenna vinnumarkaðnum renna flestir út um næstu mánaðarmót og eru væntingar um að takist að semja til langs tíma á næstu dögum. Veltur það aðallega á útspili ríkisstjórnarinnar til að liðka fyrir samningunum og er þar helst horft til millifærslukerfanna og húsnæðismála.
Krafa sjálfstæðismanna er að Vinstri græn geri sjálf ráðstafanir svo ekki komi til þess að verja þurfi matvælaráðherrann falli. Er þar meðal annars horft til fordæmisins sem Bjarni Benediktsson gaf er hann vék úr stól fjármála- og efnahagsráðherra og varð utanríkisráðherra. „Nú þarf forsætisráðherrann að sýna styrk sinn og stokka upp í sínu ráðherraliði. Ef hún hefur ekki þau áhrif að geta skákað Svandísi til, er orðið ljóst að hún hefur ekki burði til þess að leiða þessa ríkisstjórn,“ sagði einn stjórnarþingmaður í samtali við Viljann í morgun.
Fundum Alþingis hefur verið frestað til 22. janúar 2024 og skv. þingsköpum ber að taka vantrausttillögu strax fyrir hafi hún borist með lögmætum hætti. Nefndadagar verða samkvæmt starfsáætlun Alþingis frá mánudeginum 15. janúar til fimmtudagsins 18. janúar og má búast við að allt verði upp í loft í stjórnmálunum næstu daga, meðan löskuð ríkisstjórn reynir að kanna styrk sinn og verjast vantrausti á ráðherra sem myndi í reynd sprengja ríkisstjórnina, nái það fram að ganga.