„Sláandi hefur verið að horfa upp á hversu valkvætt siðferðismat Ríkisútvarpsins hefur reynst þegar hneykslismál koma upp. Og hvernig það ræður úrslitum hvar pólitíski merkimiðinn liggur.“
Þannig hefst leiðari Morgunblaðsins í dag, þar sem skotið er föstum skotum að Ríkisútvarpinu.
„Ríkisútvarpið lítur á sig í reynd sem dótturfélag Samfylkingar og Vinstri grænna (eða öfugt) og hefur lengi gert svo fráleitt sem það er. Framganga þessarar „öryggisstofnunar þjóðarinnar“ þegar reynt var að bylta landinu með valdi í kjölfar bankafallsins hefur aldrei verið rannsökuð þótt sjálfsagt væri. Allt var það langt handan við öll siðferðismörk svo ekki sé talað um það sem handfastara er, þau lög sem um þessa stofnun gilda og eru talin réttlæta tilveru hennar og þá mörgu milljarða sem eru snýtt úr nösum almennings til að halda bákninu uppi.
Markmiðið var þá að koma Samfylkingu og Vinstri grænnum til valda og stuðla að ofsóknum gagnvart þeim sem þóttu standa í vegi þess. Eftir að slík stjórn var mynduð breyttist þessi öryggisstofnun í feimnislausa áróðursdeild fyrir þá ríkisstjórn. Frægast var það í baráttunni um Icesave þar sem Ríkisútvarpið dældi einhæfum hræðsluáróðri yfir þjóðina um þá bölvun sem myndi hljótast af léti þjóðin ekki plata sig og pína til að samþykkja Icesave-hneykslið. Þessi samstæða, „RÚV“, SF og VG var þó rækilega rasskellt í þjóðaratkvæði fyrir svívirðilega framkomu sína.
„RÚV“ hefur aldrei tekið á þessari misnotkun og ekki hefur vottað fyrir því að „stofnunin“ kunni að skammast sín vegna hennar. Í seinustu lotu hneykslismála kemst Ríkisútvarpið að sömu niðurstöðu og síamstvíburinn, Samfylkingin: Vemmilegt og viðurstyggilegt fjas ölvaðra er verra mál en fjasið í verki!
Ríkisútvarpinu þykir ekkert að því að „dótturfélag þess“ SF hafi stofnað sérstaka þöggunardeild til að koma í veg fyrir að kynferðisbrotamál flokksmanna sem „kærð eru þangað“ komist upp. Þau skuli flokkuð sem ríkisleyndarmál.“ segir í leiðara Morgunblaðsins.