Ríkisvædd blaðamannafélög

Sigríður Dögg Auðunsdóttir er sökuð um að hafa ekki hreinan skjöld í fjármálum.

Með kosningu hinnar ágætu fréttakonu, Sigríðar Daggar Auðunsdóttur, í embætti formanns Blaðamannafélags Íslands, kristallast algjör yfirburðastaða ríkisins á íslenskum fjölmiðlamarkaði. Sigríður Dögg er fréttamaður á RÚV og er þar af leiðandi í Félagi fréttamanna, sem aðeins starfsmenn Ríkisútvarpsins fá inngöngu í. Einmitt þess vegna hefur hingað til verið litið svo á að Blaðamannafélag Íslands þurfi að endurspegla ekki síst starfsskilyrði þeirra sem vinna hjá einkareknu fjölmiðlunum í bullandi og afar ósanngjarnri samkeppni við ríkið með alla sína forgjöf og einokunarstöðu. Nú eru bæði fagfélög fjölmiðlafólks hér á landi undir forystu starfsmanna Ríkisútvarpsins.

Það var því frekar óheppilegt að fyrsta verk nýs formanns væri að fá ályktun samþykkta um stuðning við fréttamenn RÚV í átökum þeirra við Samherja og um leið var Morgunblaðið gagnrýnt harðlega fyrir að hafa á fréttavef sínum birt auglýsingu Samherja um myndband þar sem talað er fyrir málstað þess í deilunum við RÚV.

Þar með var blað brotið með ákveðnum hætti hjá Blaðamannafélaginu. Fjölmargir félagsmenn þar starfa hjá Morgunblaðinu og tengdum miðlum og hafa nákvæmlega ekkert að gera með hvort eða hvaða auglýsingar birtast þar. Enda hafa nú tveir trúnaðarmenn Blaðamannafélagsins á Morgunblaðinu sagt af sér í mótmælaskyni við þessa stefnubreytingu af hálfu síns stéttarfélags.

Annar þeirra er Guðni Einarsson, einn reyndasti blaðamaður þjóðarinnar, og hann segir í yfirlýsingu til stjórnar Blaðamannafélagsins, að ástæður afsagnar hans séu afskipti stjórnar BÍ af auglýsingabirtingu á mbl.is.

„Með þeim fer stjórn félagsins langt út fyrir sitt hlutverk að mínu mati og það hvorki get ég né treysti mér til að verja sem fulltrúi félagsins á mínum vinnustað,“ segir Guðni og bendir á að samkvæmt lögum Blaðamannafélagsins sé tilgangur þess að gæta „faglegra og stéttarlegra hagsmuna félagsmanna í hvívetna“ (1. gr.). Einnig að „standa vörð um prent- og tjáningarfrelsi“ (1.2 b gr.) og að hafa „áhrif á opinbera stefnu og samfélagslega umræðu um fjölmiðlun og tjáningarfrelsi“ (1.2 d). Síðast en ekki síst: „Að standa vörð um ritstjórnarlegt frelsi og sjálfstæði fjölmiðla“ (1.2 e).

Og Guðni spyr:

„Var stjórnin að gæta hagsmuna allra félagsmanna sinna eða að standa vörð um prent- og tjáningarfrelsi? Var hún að slá skjaldborg um sjálfstæði fjölmiðla? Með ákvörðun sinni tel ég að stjórnin hafi brotið gegn lögum eigin félags. Hún ætti að sjá sóma sinn í að draga gagnrýni sína til baka og að einbeita sér að tilgangi félagsins.

Þegar ég byrjaði í blaðamennsku lærði ég að „Kínamúr“ væri á milli ritstjórnar og auglýsingadeildar. Blaðamenn skiptu sér ekki af auglýsingum og skrifuðu ekki auglýsingaefni og öfugt. Þessi regla hefur almennt gilt á ritstjórnum sem hafa einhvern metnað og sjálfsvirðingu. Telji menn að tilteknar auglýsingar séu meiðandi eða ósannar þá eru leiðir til að taka á því, t.d. fyrir dómstólum.

Ekki þarf að fjölyrða um erfið rekstrarskilyrði allra annarra fjölmiðla en Ríkisútvarpsins, sem árlega fær hátt meðlag frá skattgreiðendum auk þess að vera fyrirferðarmikið á auglýsingamarkaði. Aðrir útgefendur reiða sig að miklu leyti á auglýsingatekjur og sumir á áskriftartekjur að auki. Það að stéttarfélag blaðamanna skipti sér af tekjuöflun einstakra útgefenda er í mínum huga langt fyrir utan verksvið þess.“

Svo mörg voru þau orð.