Ríkisvæðing áfram og ekkert stopp

Tíðindi dagsins um að Landsbanki Íslands, sem er í eigu þjóðarinnar, hafi keypt Tryggingamiðstöðina (TM Tryggingar) af Kviku banka fyrir 28,6 milljarða króna í reiðufé, eru enn ein vísbendingin um að ríkisvæðing atvinnulífsins heldur áfram af fullum krafti, í takt við gamalt kosningaloforð Framsóknarflokksins: Árangur áfram og ekkert stopp.

Niðurlæging Sjálfstæðisflokksins og forystumanna heldur um leið áfram, því ekki aðeins var Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fjármálaráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, sérstaklega búin að segja að í Þjóðmálum nýverið að sér hugnaðist ekki slík fjárfesting ríkisbanka, heldur gengur þessi þróun algjörlega í berhögg við stefnu flokksins um að aukna einkavæðingu, að losa tök ríkisins á áhættusömum bankarekstri og kemur eins og skrattinn í sauðaleggnum á eftir áformum um að halda áfram sölu á eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka.

Gamalreyndur stjórnmálamaður sagði, í samtali við Viljann í dag, að það væri eins og markmið Vinstri grænna og Framsóknarflokksins þessa dagana væri að reyna á þanþol sjálfstæðismanna, að athuga hversu miklu forystumenn flokksins eru til í að kyngja í skiptum fyrir það að vera áfram við völd.

Viðskiptaráð benti á dögunum á að fá ríki séu jafn umsvifamikil og Ísland þegar kemur að eignarhaldi hins opinbera í fyrirtækjum á sviði bankaþjónustu. Árið 2023 var hlutdeild banka sem íslenska ríkið fer með meira en 50% miðað við heildareignir bankanna en í hátekjuríkjum var hlutfallið aðeins 5% árið 2020. Og þetta var skrifað áður en tilkynnt var um enn eina ríkisvæðinguna.

Vissulega má skilja að stjórnendur og hluthafar Kviku fagni þessum viðskiptum, en sjálfstæðismenn um land allt hljóta að vera í alvarlegri tilvistarkreppu eftir þessu tíðindi. Til hvers er enda stjórnmálaflokkur sem segist hafa stefnu, en fylgir henni nánast aldrei? Hvenær ætlar forysta Sjálfstæðisflokksins að átta sig á því augljósa, að komið er nóg af þessu rugli.