Ríkisvæðingin að kæfa einkaframtakið í boði Sjálfstæðisflokksins

Sú frétt, sem birtist í Morgunblaðinu í morgun, að ákveðið hafi verið verið að leggja niður lækna­stof­ur og skurðstof­ur í Domus Medica frá næstu ára­mót­um, kemur varla á óvart miðað við ríkisvæðingarstefnu stjórnvalda og það hvernig allt er gert í heilbrigðisráðuneytinu til þess að bregða fæti fyrir einkaframtakið.

Domus Medica er rótgróið samlagsfyrirtæki lækna sem hafa sinnt sjúklingum afbragðsvel um áratugaskeið og létt þannig á biðlistum opinbera kerfisins. Um þessar mundir starfa þar um sjötíu sérfræðingar, auk þess sem margvísleg önnur starfsemi hefur verið rekin undir sama þaki, t.d. blóðrannsóknir og apótek.

Þótt Sjálfstæðisflokkurinn eigi aðild að þessari ríkisstjórn, hefur flokkurinn horft aðgerðalaus á það hvernig einkaframtakið hefur markvisst verið talað niður á þessu kjörtímabili þegar kemur að heilbrigðismálum. Forysta flokksins virðist láta sér vel líka að allri heilbrigðisþjónustu eigi að velta gegnum Landspítalann, enda þótt biðlistar lengist þar og þjónustu sé ábótavant. Ekki aðeins Domus Medica hefur fundið fyrir þessu; sama hafa aðilar á borð við Krabbameinsfélagið og Klíníkin gert, að ekki sé minnst á sjálfstætt starfandi aðila í kerfinu um allt land.

Engu skiptir þótt þjónustukannanir leiði í ljós, að til dæmis á höfuðborgarsvæðinu er mest ánægja með einkareknar heilsugæslustöðvar sem hafa opnað t.d. á Höfðanum og við Ögurhvarf, þar sem fólk í læknisleit kemst strax að með erindi sín og finnur stóran mun á þjónustu og viðmóti starfsfólks.

„Sú rík­i­s­væðing­ar­stefna sem rík­is­stjórn­in hef­ur rekið í fjög­ur ár vinn­ur ekki með þess­ari starf­semi. Menn treysta sér ekki til að halda áfram í því ástandi sem hef­ur ríkt í stjórn­un heil­brigðisþjón­ust­unn­ar nokkuð lengi,“ seg­ir Jón Gauti Jónsson, framkvæmdastjóri Domus Medica í Morg­un­blaðinu í dag.

Það er ekki skrítið þegar fátt annað blasir við að ríkisstjórn sömu flokka haldi áfram í fjögur ár eftir kosningarnar með áframhaldandi ríkisvæðingu að leiðarljósi. Allt er það í boði Sjálfstæðisflokksins og með hans velþóknun, enda þótt fulltrúar hans fari nú prúðbúnir í prófkjörsham um allt og prédiki mikilvægi einkaframtaksins. Þeir hafa ekki lyft litla fingri á þessu kjörtímabili til að láta efndir fylgja þeim orðum sínum.