Þegar Íslendingar voru að kveikja undir grillunum í gær og hella köldum drykk í glas og búa sig undir að horfa á Eurovision barst fjölmiðlum látlaus tilkynning frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu.
Þar var skýrt frá því að Hildur Knútsdóttir hafi verið skipuð formaður stjórnar loftslagssjóðs.
„Hildur er rithöfundur, hefur látið baráttuna í loftslagsmálum sig miklu varða og er yfirlýstur aðgerðasinni í loftslagsmálum,“ sagði ennfremur í tilkynningunni.
„Rannís mun annast umsýslu loftslagssjóðsins sem er hluti af aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum. Samkvæmt frumvarpi um breytingar á loftslagslögum sem nú liggur fyrir Alþingi verður hlutverk sjóðsins að styðja við nýsköpunarverkefni á sviði loftslagsmála. Sjóðurinn á meðal annars að styrkja þróunarstarf og rannsóknir á sviði loftslagsvænnar tækniþróunar og nýsköpunar á Íslandi og verkefni sem lúta að rannsóknum, kynningu og fræðslu um áhrif loftslagsbreytinga.
Alls verður um 500 milljónum króna varið til sjóðsins á fimm ára tímabili,“ sagði þar ennfremur.
Stjórnlaus gróðahyggja, óhófleg neysla
Hildur Knútsdóttir er ekki vísindamaður. Hún kallar sig femínista og loftslagsaktívista og hefur skrifað bækur, sem margar hverjar hafa fengið afbragðsdóma, unnið til fjölda verðlauna og verið þýddar á fjölmörg tungumál.
Hildur er með B.A.-gráðu í ritlist og sjálf hefur hún lýst því, að vera virk í feminískri baráttu, „en hef síðustu árin að mestu helgað mig baráttunni gegn loftslagsbreytingum, sem eru stærsta ógn sem mannkynið stendur frammi fyrir. Tíminn til að bregðast við er naumur, en það er ekki um seinan. Við vitum hvað við þurfum að gera, tæknin er til staðar, það þarf bara vilja til að taka af skarið.
Baráttan gegn loftslagsbreytingum er í grunninn barátta fyrir jöfnuði. Rót loftslagsvandans er nefnilega stjórnlaus gróðahyggja, óhófleg neysla og yfirgangur lítils hluta mannkyns á kostnað þeirra sem standa hallari fæti. Loftslagsvandinn snýst um réttlæti og verður ekki leystur nema með því að koma jöfnuði á í samfélaginu. Afraksturinn verður betra samfélag, í sátt við náttúruna,“ sagði hún við Ríkisútvarpið fyrir nokkrum árum, en hún hefur m.a. unnið sem verkefnastjóri í loftlagsmálum hjá Náttúruverndarsamtökum Íslands.
Sögulegar sættir?
Svo er nú það. Bráðsnjall rithöfundur, sem kallar sig loftslagsaktívista, er orðinn formaður stjórnar risasjóðs sem ætlar að beita sér fyrir rannsóknum, kynningu og fræðslu um áhrif loftslagsbreytinga.
En það sem Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfisráðherra, tiltók ekki í tilkynningu sinni í gærkvöldi, er að Hildur er fyrrverandi varaþingmaður Vinstri grænna og áberandi í forystusveit og hugveitum þess flokks (meðal annars í umhverfismálum) um árabil.

En eftir fullveldishátíðina á Þingvöllum í fyrra og harðar deilur ríkisins við stétt ljósmæðra, sagði hún sig úr flokknum með opinberum hætti og sagðist ekki geta stutt hann lengur.

Nú voru góð ráð dýr. Og ekki öll vinstri grænu dýrin í skóginum lengur vinir.
Hvað er þá hægt að gera?
Jú, hringja í rithöfundinn og bjóða honum eina stærstu stjórnarformennsku úthlutunarsjóðs sem til er í stjórnkerfinu (á helsta áhugasviði viðkomandi) og reyna þannig að bera smyrsl á sárin.
Og það virðist hafa lukkast svona vel…