Rökrétt viðbrögð háskólarektors

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, við brautskráningu. / HÍ Kristinn Ingvarsson.

Það gengur jafnan mikið á í samfélagsumræðunni, svo mjög raunar að landsmenn vita á stundum ekki hvaðan á þá stendur veðrið. Fæst af því mun skipa veglegan sess í sögubókum framtíðarinnar.

Nú berast af því fregnir að siðanefnd Háskóla Íslands hafi öll sagt af sér og bera fyrir sig trúnaðarbrest gagnvart sjálfum rektor Háskólans, Jóni Atla Benediktssyni.

Undirliggjandi eru ásakanir rithöfundarins Bergsveins Birgissonar á hendur Ásgeiri Jónssyni seðlabankastjóra um ritstuld, en siðanefndin hafði ákveðið að taka málið fyrir. Krafðist Ásgeir frávísunar á þeim grundvelli að siðanefnd háskólans hefði enga lögsögu yfir seðlabankastjóra og innti hann rektor bréflega eftir upplýsingum um réttarstöðu sína, að því greinir frá í Morgunblaðinu sem kveðst hafa undir höndum yfirlýsingu nefndarinnar þessa efnis frá 7. febrúar.

Rektor sagði sinn skilning og háskólans að siðanefndin hefði ekki lögsögu gagnvart Ásgeiri Jónssyni. Hann væri enda í launalausu langtímaleyfi sem Seðlabankastjóri og því mat rektors að hann sé hvorki undir stjórn skólans né boðvaldi rektors.

Siðanefndin telur á hinn bóginn að Ásgeir sé enn akademískur starfsmaður Háskólans. Því eigi hún að fjalla efnislega um málið þrátt fyrir að það eigi uppruna sinn utan veggja akademíunnar. Með afsögn nefndarmanna er ljóst að málið er komið á byrjunarreit; skipa þarf nýja siðanefnd og hún að taka afstöðu til þess hvort málið heyri yfirleitt undir hana.

Í öllu samhengi verður hins vegar vart annað séð, en rektor hafi komist að rökréttri niðurstöðu í sinni nálgun. Auðvitað blasir við að maður sem gegnir embætti seðlabankastjóra getur í engum stjórnsýslulegum skilningi heyrt undir stjórn Háskóla Íslands eða rektor hans. Frekar en núverandi eða fyrrverandi forsetar Íslands, dr. Guðni Th. Jóhannesson og dr. Ólafur Ragnar Grímsson, sem báðir fengu ótilgreint og opið launalaust leyfi sem fræðimenn Háskólans til þess að gegna forsetaembættinu. Bara svo dæmi séu tekin.

Augljóst er að sá sem ósáttur er við einstaka embættisfærslur forseta Íslands getur ekki átt þann möguleika að skjóta því til siðanefndar Háskóla Íslands. Sama á við um seðlabankastjóra. Það er engin bein tenging þeirra við Háskóla Íslands meðan þeir gegna embættum sínum; hún hefur tímabundið verið tekin úr sambandi. Þegar og ef viðkomandi snúa svo aftur í fræðasamfélagið kæmist sú tenging hins vegar augljóslega aftur á.