Rosalegar sveiflur í fylgi og galdurinn að toppa á réttum tíma

Það er eiginlega lygilegt að fylgjast með baráttunni fyrir komandi forsetakosningar og sveiflunum í skoðanakönnunum. Flest bendir til að mjög mjótt verði á mununum, þótt Katrín Jakobsdóttir hafi nú mælst efst í fjórum skoðanakönnunum í röð, og helsta fréttin er eiginlega sú rosalega sveifla sem hefur orðið á fylgi Höllu Hrundar Logadóttur annars vegar og Höllu Tómasdóttur hins vegar.

Stundarvinsældir eru fallvalt fyrirbæri, eins og aldeilis hefur komið í ljós. Orkumálastjórinn Halla Hrund steig óvænt inn á sviðið með framboði sínu og rauði dregillinn virtist um leið dreginn út hjá þjóðinni sem tók henni opnum örmum. Á undraskömmum tíma rauk fylgið upp í hæstu hæðir (36% hjá Gallup) en nokkrum vikum síðar er það komið niður í ríflega 16%.

Á sama hátt fór Halla Tómasdóttir afar hægt af stað og mældist við áfengismörkin framan af, en rétt eins og fyrir átta árum, vissi frambjóðandinn að vika væri langur tími í pólitík og að margt gæti breyst. Með hverju viðtalinu og hverjum kappræðunum, hélt fylgið áfram að rísa og könnun Maskínu í kvöld leiðir í ljós annað sæti, eða tæplega 19%.

Ótrúlegt ris og fall Höllu Hrundar er verðugt rannsóknarefni, en varla leikur nokkur vafi á að komið hafi á daginn, að hún hafi toppað of snemma. Frammistaða í kappræðum var ekki í samræmi við væntingar og framboð hennar virðist illa skipulagt í samanburði við ýmis önnur og skilaboðin óljós. Á endanum er kannski ekki nóg að beita því sem kallað hefur verið norska bragðið í Eurovision, að grípa í harmonikkuna. Meira þarf til.

Halla Tómasdóttir býr hins vegar yfir dýrmætri reynslu frá kosningabaráttunni fyrir átta árum. Þar steig hún á nokkrum vikum úr engu fylgi í að fá næstmest, eða ríflega 28%. Nú er hún aftur á mikilli siglingu og er líkleg til að verða helsti keppinautur Katrínar Jakobsdóttur á lokasprettinum.

Nú er aðeins rúm vika til kosninga, svo tíminn er naumur. Samt getur enn allt gerst. Fylgið dreifist enn á marga frambjóðendur og ekki er víst að allir stuðningsmenn Baldurs Þórhallssonar, Jóns Gnarr eða Höllu Hrundar gleðjist yfir nýfundnum vinsældum Höllu Tómasdóttur. Öðru nær, enda augljóst hvaðan hún fær fylgið.

Halla Tómasdóttir verður því í sviðsljósinu næstu daga og gæti fengið erfiðari spurningar en hingað til, þar sem hún er nú rækilega komin á radarinn.

Við bíðum spennt…