„Það að fólk skipti um sæti við ríkisstjórnarborðið breytir ekki að ríkisstjórnin er svo sundruð að hún getur ekki skilað árangri fyrir fólkið í landinu. Ríkisstjórnin hefur ekki styrk til að taka neinar ákvarðanir sem máli skiptir,“ segir Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, í færslu á fésbókinni.
„Að skipta um sæti við ríkisstjórnarborðið breytir ekki heldur að þingmenn ríkisstjórnarinnar segjast ekki sammála Umboðsmanni Alþingis um lögbrot við bankasöluna. Viðurkenna sem sagt ekki niðurstöðuna. Segjast bara ósammála. Segja að það eina sem skipti máli sé að þau treysti hvert öðru. Fólkið sem samt þurfti að fara í rútuferðalag í hópefli og tóku þar daginn í ratleik í leit að erindi sínu.
Niðurstaða umboðsmanns er ekki síður áfellisdómur yfir forsætisráðherra sem í gegnum alla þessa umræðu og gagnrýni hefur gert tvennt: Sagt að ekkert hafi bent til annars en að undirbúningur sölunnar standist og barist hart gegn því að þáttur fjármálaráðherra um undirbúning og eftirlitsskyldu verði rannsakaður.
Heil vinnuvika ríkisstjórnarflokkanna hefur farið í að gera allt annað en að ræða hvað fór úrskeiðis við undirbúning sölunnar og hvað klikkaði í eftirlitsskyldu á rúmlega 50 milljarða hlut í Íslandsbanka. Næstu vinnuviku segja þau eiga að snúast um áframhaldandi sölu. Án þess að ræða hvað fór úrskeiðis hjá þeim sjálfum en eftir að hafa víxlað sætum við borðið,“ bætir hún við.