Sagði Bandaríkin mikilvægasta Evrópuríkið og vildi stækka NATO

Ólafur Ragnar Grímsson þáverandi forseti Íslands sagði í viðtali við Svenska Dagbladet á fyrsta kjörtímabili sínu að hann teldi mikilvægt að Eystrasaltsríkin fengju tækifæri innan Atlantshafsbandalagsins. Annað væri einungis viðurkenning á því að Sovétríkin væru enn við lýði.

„Það liggur ljóst fyrir að skoðanir Íslendinga eru ekki sérlega vinsælar í Washington og Bonn, en þar vilja menn bíða og sjá til,“ var haft eftir Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, í Svenska Dagbladet 24. nóvember 1998, en þar ræddi hann m.a. aðild Eystrasaltsríkjanna að Atlantshafsbandalaginu, NATO.

Í endursögn Morgunblaðsins daginn eftir segir er þetta haft eftir Ólafi Ragnari:

„En á sérhverjum fundi er ég hef átt með erlendum stjórnmálamönnum hef ég lagt áherslu á nauðsyn þess að Eystrasaltsríkin fái tækifæri í NATO. Annað væri einungis viðurkenning á því að Sovétríkin séu enn við lýði.“

Forseti Íslands lagði jafnframt, að sögn blaðsins, mikla áherslu á hlutverk Íslands í NATO. Þá um sumarið hefði hann heimsótt Eystrasaltslöndin þrjú, þar sem hann sagði að boðskapur sinn hafi verið: „Þið eigið grundvallarrétt á að verða aðilar að NATO.“

Í viðtalinu tiltók Ólafur Ragnar sérstaklega, að mikilvægasta Evrópuríkið væru Bandaríkin og tiltekur blaðamaður sænska blaðsins sérstaklega að þar mæli maður sem hafi í átta ár verið leiðtogi Alþýðubandalagsins. Á móti benti Ólafur Ragnar á málefni Balkanskaga, Norður-Írlands og Rússlands sem rök fyrir því að evrópskir raunsæismenn verði að viðurkenna mikilvægt hlutverk Bandaríkjanna. 

Sagði stækkun NATO hafa valdið stríði í Evrópu

Í Silfrinu um helgina, sagði Ólafur Ragnar hins vegar að stækkun Atlantshafsbandalagsins til austurs hefði leitt til mestu styrjaldar í Evrópu, eða alla vega ekki komið í veg fyrir hana. 

Ríki á Vesturlöndum verði að endurskoða afstöðu sína til Rússlands og hvernig þau vilji haga samskiptum sínum við landið. Hann segir að sú stefna sem fylgt hafi verið eftir fall Sovétríkjanna hafi ekki dugað til að halda Rússum í skefjum.