Sakaður um áróður og að bendla Sjálfstæðisflokkinn ítrekað við nasista

Þorvaldur Gylfason hagfræðiprófessor.

Þorvaldur Gylfason hagfræðiprófessor er ekki óumdeildur fræðimaður fremur en margir aðrir. Það er ekkert að því, út af fyrir sig en varla getur nokkur maður undrast að hann skuli ekki tilnefndur af Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra og formanni Sjálfstæðisflokksins til trúnaðarstarfa á vegum ráðuneytisins erlendis.

Sama fólkið og talar nú hátt um hneyskli, veit vel að fjármálaráðherrarnir Oddný Harðardóttir eða Steingrímur J. Sigfússon hefðu aldrei tilefnt prófessora á borð við Ragnar Árnason, Hannes Hólmstein Gissurarson eða Runólf Birgisson í slík trúnaðarstörf.

Það hefði bara ekki einu sinni hvarflað að þeim.

Hvort sem Þorvaldur er enn skráður formaður svonefndar Lýðræðisvaktar á Wikipediu eður ei, er hann rammpólitískur. Hann hefur oft og ítrekað gengið svo langt að líkja sjálfstæðismönnum við nasista, hvorki meira né minna og verið óumdeildur andstæðingur þeirra ríkisstjórna sem flokkurinn hefur setið í.

Það þarf því varla að koma mörgum á óvart, að Bjarni Benediktsson geri ekki tillögu um hann sem sérstakan trúnaðarmann síns ráðuneytisins í störfum á erlendri grundu.

Hér var ekki um að ræða embætti sem er auglýst með tilteknu ráðningarferli og óháðri matsnefnd. Hvert og eitt fjármálaráðuneyti hafði tillögurétt og neitunarrétt og Þorvaldur var hvergi á blaði þegar kom að tilnefningum íslenska fjármálaráðuneytisins.

Ein þeirra sem undrast hávaðann í umræðunni nú, er gamall nemandi hans í Háskólanum, Andrea Sigurðardóttir. Hún segir í færslu á fésbókinni það vera magnað að sjá Þorvald Gylfason málaðann sem einhvers konar ópólitískt fórnarlamb illgjarnra ráðuneytisstarfsmanna og ráðherra.

„Hvort sem ÞG er í forsvari fyrir stjórnmálahreyfingu í dag eða ekki, þá liggur fyrir að maðurinn er rammpólitískur. Ekki nóg með það, heldur hefur honum gengið afskaplega illa að aðskilja pólitík sína frá akademískum störfum, að mínu mati. Ég, sem nemandi við Háskóla Íslands, þurfti að sitja undir pólitískum áróðri þessa manns í kennslustundum, m.a. um inngöngu Íslands í Evrópusambandið, þangað til ég fékk nóg og hætti að mæta í tímana til hans.

Andrea Sigurðardóttir hætti í námskeiði Þorvaldar vegna áróðurs hans í kennslutímum.

Það er að mínu mati siðferðislega rangt og ámælisvert að beita sér í stöðu sinni sem háskólaprófessor til að miðla pólitískum áróðri í búningi kennslufyrirlesturs til ungra háskólanema, líkt og ég upplifði hann gera.

Einstaklingur sem í gegnum árin hefur opinberað pólitískar skoðanir sínar og virðist ekki kunna mörk akademískra starfa sinna og pólitíkur, ætti ekki að láta sér það á óvart koma að hann sé talinn pólitískur (en ekki bara hlutlaus prófessor) og njóti þar af leiðandi ekki stuðnings pólitískra andstæðinga við pólitíska ráðningu norrænna ráðuneyta.

Það þýðir ekkert að væla um að ÞG sé ekki í forsvari eiginlegrar stjórnmálahreyfingar í dag. Davíð Oddson er ekki í forsvari stjórnmálahreyfingar í dag, ætlar einhver að reyna að halda því fram að hann sé ekki pólitískur?

Myndi nokkur lyfta brúnum þótt ráðuneyti Samfylkingarinnar myndi ekki styðja Hannes Hólmstein sem ritstjóraefni við pólitíska ráðningu norrænna ráðuneyta? Hann er nú einu sinni ekki í forsvari stjórnmálahreyfingar og starfar í akademíunni. Væntanlega fullkomlega ópólitískur, líkt og ÞG… eða hvað? ?

Akademísk prófessorstaða gerir menn ekki sjálfkrafa ópólitíska og hlutlausa fræðimenn,“ bætir Andrea við.