Það er líklega flestum ljóst að útgerðarfélagið Samherji nýtur ekki mikilla vinsælda í Efstaleitinu, þar sem eru höfuðstöðvar Ríkisútvarpsins. En frétt sem birtist á vef RÚV í dag hlýtur þó að teljast með verri dæmum sem fundist hafa um Samherja-heilkennið sem hrjáir starfsfólk Ríkisútvarpsins, því þar mátti lesa á milli línanna miklar áhyggjur af sérdeilis velheppnuðum Fiskidegi á Dalvík um síðustu helgi og misheppnaðar tilraunir til að finna einhvern, já bara einhvern skandal í því.
Að venju komu fjölmargir tónlistarmenn fram á Fiskideginum undir stjórn gleðipinnans Friðriks Ómars. Meðal óvæntra númera, utan auglýstrar dagskrár, var hins vegar feykifjörug innkoma Ingu Sæland, formanns Flokks fólksins og alþingismanns, sem tók lagið Simply the best að hætti Tinu Turner og tryllti viðstadda.
Þetta var full jákvæður viðburður fyrir einhverja í Efstaleitinu, því í dag birtist frétt um að Inga Sæland hafi ekki fengið greitt fyrir að koma fram á Dalvík, eins og einhverjir aðrir en starfsmenn Ríkisútvarpsins hafi haft áhyggjur af því.
„Júlíus Júlíusson, framkvæmdastjóri Fiskidagsins, sagði í samtali við fréttastofu að Inga hafi tekið Tinu Turner „og gjörsamlega rústaði því.“ Rætt er við Ingu sjálfa sem segir það aldrei hafa verið í umræðunni að þiggja laun fyrir að koma fram. „Þetta var ekkert nema gleði og gaman.“ Aðspurð hvort hún hafi nýtt sér ferðakostnað Alþingis fyrir að fara norður neitar Inga því. Leiguflugvél frá flugfélaginu Erni hafi verið leigð undir listamenn sem var flogið norður.
Sagt er að forsenda þess að vinna í erfiðum málum sé að viðurkenna vandann og ræða opinskátt um hann. Hér er lagt til að útvarpsstjóri og hans fólk geri það og ræði sín og milli um Samherja-heilkennið og leiðir til að komast á betri stað. Fylgja þeim góðar óskir í bataferlinu…