Nýjum mönnum fylgja nýir siðir, segir einhvers staðar og það á svo sannarlega við um dr. Ásgeir Jónsson nýskipaðan seðlabankastjóra.
Í kjölfar ákvörðun peningastefnunefndar Seðlabankans um að lækka stýrivexti um 0.25 punkta í gær, ræddi seðlabankastjóri ákvörðunina, ástand og framtíðarhorfur á blaðamannafundi og með greiningaraðilum, svo sem venja er. En athygli vakti líka, að hann svaraði gagnrýni á störf sín á samfélagsmiðlum í gær, en glöggir menn segja slíkt án nokkurra fordæma í umræðum hér á landi.
Þröstur Ólafsson hagfræðingur og fyrrverandi framkvæmdastjóri Dagsbrúnar (og þar yfirmaður Ásgeirs um skeið, þegar hann var Gvendi Jaka til aðstoðar í kjarasamningsgerð) sagðist á fésbók í gær hafa orðið „all undrandi“ þegar hann heyrði nýskipaðan seðlabankastjóra tala um að efnahagssamdrátturinn fengi létta lendingu.
„Hvaða samdráttur? Hér er allt á flegiferð. Hagkerfið keyrt á mikilli yfirgetu. Um 30 þús. útlendinga þarf til að láta það ganga snuðrulaust. Það er ljósár utan við getu eðlilegra framleiðsluþátta. Svo endaði hann viðtalið með því að segja – -að verið væri að beita peningastefnunni til að skapa ný störf !! Er það nýtt hlutverk Seðlabankans að skapa ný störf í hagkerfi sem er með yfirspenntan vinnumarkað. Ég sem hélt það fremur vera hlutverk ríkisstjórna — eða er þetta bara heldur ódýr stjórnmálaklisja?“ sagði Þröstur.
Ásgeir var ekki lengi að svara fyrir sig á sama vettvangi:
„Sæll Þröstur. Ég vil gjarnan benda þér á nýjustu Peningamál. Þar er spáð er lítils háttar samdrætti á þessu ári – og jafnframt að spennan á vinnumarkaði sé horfin. Við þessar aðstæður á Seðlabankinn að örva hagkerfið – og skapa störf með lækkun vaxta. Svo einfalt er það.“
Ferskir vindar fylgja mönnum sem þora og vilja ræða sínar ákvarðanir og útskýra þær. Ákvarðanir peningastefnunefndar og seðlabankastjóra eru nefnilega bara mannanna verk og ekki hafnar yfir gagnrýni.