Segir að Dagsbrúnarmenn hefðu ekki látið bíða eftir sér

Þröstur Ólafsson hagfræðingur.

„Ég fékk dýfu skammaryrða frá Sólveigu Önnu þegar ég vogaði mér að líkja vinnubrögðum og kröfugerð Eflingar á hendur borgarinnar fyrir umönnunarstéttir og aðra, sem eins konar gíslatöku. Mér sýnast þessi vinnubrögð halda ótrauð áfram þrátt fyrir myndarlegt útspil borgarinnar.“

Þetta segir hagfræðingurinn Þröstur Ólafsson á fésbók sinni, en hann er fyrrverandi framkvæmdastjóri Verkamannafélagsins Dagsbrúnar, eins helsta forvera Eflingar sem stendur nú í erfiðri kjarabaráttu við Reykjavíkurborg. Verkfall um 1.900 starfsmanna hjá borginni hefur nú staðið um langt skeið og ekkert útlit fyrir samninga.

„Sem nokkuð hagvönum samningamanni finnst mér kyndugt að Efling skuli ekki taka útspili Dags fagnandi og setjast niður og semja. Við samningaborðið á að rífast, spyrja í þaula og krefjast svara við því sem virðist óljóst. Ekki í fjölmiðlum með formlegum stórveldayfirlýsingum um áframhaldandi stríðátök. Stórveldishroki leiðir ekki til farsællar niðurstöðu,“ segir Þröstur.

Hann kveðst hræddur um að forsvarsmenn Dagsbrúnar hefðu ekki látið bíða lengi eftir sér í þá daga, ef þeir hefðu fengið annað eins tilboð á borðið eins og nú liggur fyrir frá samninganefnd borgarinnar.

„Það er enginn annar staður til að semja en samningaborðið, þótt leiðinlegt geti verið. En kannski var það aldrei megintilgangur að semja um bætt kjör, heldur að skapa glundroða og óánægju og plægja akurinn fyrir Sósíalistaflokkinn. Dagsbrún var iðulega ramm pólitísk – en hún var aldrei verkfæri utanaðkomandi afla,“ segir Þröstur ennfremur.