Þórdís Lóa Þórhallsdóttir oddviti Viðreisnar í borginni mun taka við af Degi B. Eggertssyni sem borgarstjóri Reykjavíkur á miðju kjörtímabili.
Þetta fullyrti Jón Kristinn Snæhólm alþjóðastjórnmálafræðingur og fyrrverandi aðstoðarmaður Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar borgarstjóra, en hann var gestur Pétur Gunnlaugssonar í síðdegisútvarpinu á Útvarpi Sögu í gær.
„Þetta er bara vitað, þau munu þræta fyrir þetta núna og kannski er ég að eyðileggja þetta fyrir þeim en hrossakaupin eru þannig að þau geta ekki leyft þessum meirihluta að falla, því að braggamálið og hvernig borgarstjóri hefur látið aðra taka slaginn og sett aðra flokka í víglínuna og hent einum af sínum embættirmönnum á gaddavírinn er alveg nóg til að slíta svona meirihlutasamstarfi“, sagði Jón, sem hefur nú sett þáttinn Hrafnaþing aftur af stað með Ingva Hrafni Jónssyni, nú í sjónvarpi mbl.is.