Segir Guðlaug Þór elta Vinstri græna „og þeirra loftslagsfasisma og skattagleði í blindni“

Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins.

Bergþór Ólason, þingflokksformaður Miðflokksins, vandar Guðlaugi Þór Þórðarsyni, umhverfisráðherra, ekki kveðjurnar í grein í Morgunblaðinu í dag fyrir frumvarp um viðskiptakerfi ESB með losnarheimildir sem keyra á í gegn á þingi fyrir áramót.

„Guðlaugur Þór ákvað að reyna að koma aftan að þinginu með þessu frumvarpi sínu, sem varðar gríðarlega hagsmuni í flutningastarfsemi á Íslandi, bæði flugi og siglingum. Ráðherrann ákvað semsagt að henda málinu inn með afbrigðum, þegar aðeins 11 dagar eru eftir að þingstörfum fram að jólahléi, með kröfu um afgreiðslu áður en jólin ganga í garð.

Það þýðir að ráðherrann virðist vilja komast hjá allri umræðu um málið. Hann vill þrengja svo að umsagnaraðilum að þeir varla hafa tíma til að lesa málið áður en þeim er ætlað að hafa skilað um það umsögn sem vit er í. Vitandi hvað þetta er í raun slæmt mál eltir hann Vinstri græna og þeirra loftslagsfasisma og skattagleði í blindni án þess að gæta að afleiðingunum.

Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfisráðherra.

Þetta er slíkt glapræði af hálfu ráðherrans enda er í þessum doðranti sem hann kallar frumvarp að finna sum af flóknustu málum sem á fjörur Íslands hafa rekið síðan EES samningurinn var lögfestur. Loftslagsskattar á flugstarfsemi, loftlagsskattar á skipasiglingar og 12 aðrar gerðir í leiðinni. Sumar glænýjar, aðrar uppfærðar.“

Bergþór segir meginskyldu hverrar ríkisstjórnar er að vernda hag lands og þjóðar. Nú um stundir sitji landsmenn uppi með ríkisstjórn sem virðist ófær um einmitt það.

„Hún er ófær um flest og situr með bæði hendur og fætur bundna í hnút ósættis og ráðaleysis – allt í þágu stöðugleika. Á meðan geysar verðbólgan, vextir hækka, orkumálin eru í ólestri og þá skal ekki gleyma útlendingamálunum,“ bætir hann við.