Segir rasisma tengjast viðhorfi Íslendinga til hælisleitenda

Halldór Auðar Svansson, fv. borgarfulltrúi Pírata.

„Þjóðarímynd okkar gengur út á það að við vorum duglegt fólk sem flúði kúgun í Noregi og lagði það á sig að búa sér til nýtt líf í nýju landi.“

Þetta segir Halldór Auðar Svansson, fv. borgarfulltrúi Pírata í færslu á fésbókinni í dag, en umræður um hælisleitendur hafa verið áberandi að undanförnu og dómsmálaráðherra lagði fram frumvarp á Alþingi í gær um hert útlendingalög til að sporna við fjölgun umsókna um alþjóðlega vernd hér á landi, m.a. bersýnilega tilhæfulausum umsóknum, eins og það er orðað í frumvarpinu.

Þar kom einnig fram, að á árinu 2016 fjölgaði umsækjendum um alþjóðlega vernd á Íslandi um 778, þ.e. umsóknir fóru úr 354 árið áður í 1.132 en þá hafði umsóknum einnig fjölgað verulega. Meiri hluti þessara umsækjenda voru ríkisborgarar Makedóníu og Albaníu, sem hafa verið skilgreind sem örugg upprunaríki á grundvelli 2. mgr. 29. gr. laga um útlendinga, og umtalsverður fjöldi frá öðrum ríkjum þar sem fyrir liggur að almennt er engin ástæða til að flýja ofsóknir.

Á árinu 2017 hélt þessi þróun áfram og þegar leið á árið var fjöldi umsækjenda um alþjóðlega vernd á Íslandi orðinn einn sá mesti í Evrópu og langmestur á Norðurlöndum, miðað við höfðatölu, þrátt fyrir legu landsins.

Halldór Auðar gagnrýnir harðlega viðhorf þjóðarinnar í garð þessa hóps:

„Þegar landflótta fólk kemur hingað í dag er hins vegar stór hluti þjóðarinnar á því að það sé afætur og tækifærissinnar sem beri að skutla beinustu leið úr landi, bara til einhvers annars Evrópuríkis sem á að sjá um það. Bara eitthvert þar sem við þurfum ekki að eiga við það. Við erum örugg, eigum nóg með okkur og nú er landið lokað og læst.

Mögulega tengist þetta því eitthvað að sumt af fólkinu sem bankar upp á núna er brúnt á litinn. Ég nenni ekki að vera í einhverri meðvirkni gagnvart því að rasismi kemur hér við sögu. Rasismi og almenn sjálfhverfa eru reyndar nátengd fyrirbæri og verða ekki auðveldlega aðskilin,“ segir hann.