Segir RÚV hafa tekið upp náið vinnusamband við vinstrisinnaða vefmiðla

Sigurður Már Jónsson blaðamaður.

„Um starfsemi Ríkisútvarpsins hefur staðið mikill styr undanfarin ár og hefur hann aukist ef eitthvað er samfara því hve staða einkarekinna fjölmiðla hefur versnað. Ríkisútvarpið, með sitt mikla fjármagn, hefur þannig orðið ákveðin valdamiðja í fjölmiðlaheiminum. Á fréttasviðinu sést það meðal annars á því að stofnunin hefur tekið upp náið vinnusamband við vinstrisinnaða vefmiðla, eins og Stundina og Kjarnann, þegar kemur að stórum fréttamálum sem beinast að stórfyrirtækjum eða borgaralega sinnuðum stjórnmálamönnum. Hvort sem mönnum líkar það betur eða verr þá hafa vinnubrögð fréttastofu Ríkisútvarpsins breyst á undanförnum árum og fréttastefnan að sumu leyti harðnað. Það er ekki nóg að segja fréttir, það þarf líka að stýra umræðunni og sögunni að baki fréttinni (narratífinu á vondri íslensku). Spyrja má líka af hverju stofnunin velur samstarfið við Stundina og Kjarnann, en ekki til dæmis Viðskiptablaðið eða Fréttablaðið?“

Þannig skrifar Sigurður Már Jónsson, einn reyndasti fjölmiðlamaður landsins, í nýjum pistli á mbl.is, en hann hefur meðal annars starfað sem ritstjóri, fréttastjóri, varaformaður Blaðamannafélags Íslands og upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar á undanförnum árum.

„Fréttaheimurinn hefur breyst á frekar stuttum tíma. Nú er hægt að draga saman gríðarlegt gagnamagn og stundum er hefur sá sem segir söguna miklu meira af gögnum undir höndum en sá sem um er fjallað. Upplýsingastreyminu er síðan stýrt í gegnum lekaveitur sem sækja sér fjármagn í kringum stóra gagnaleka eins og afhjúpaðist í málaferlum rekstrarfélags WikiLeaks, Sunshine Press Productions, og þjónustuaðila þess, DataCell, við Valitor. Valdið hefur færst til og það virðist örla á því að starfsmenn stofnunarinnar líti á sig sem almenna dagskrárstjóra í þjóðmálaumræðunni. Hið sérstaka hugtak í íslenskri fjölmiðlagsögu, „drottnandi þjónar“ sem Þorbjörn Broddason fjölmiðlafræðingur bjó til hefur þannig fengið nýja merkingu,“ segir Sigurður Már og bætir við, að augljóst sé að í lýðræðisþjóðfélagi gangi ekki upp að Ríkið, með sínum fjölmiðli, gangi næstum frá öllum samkeppnisaðilum, og setji þá svo í öndunarvél á kostnað skattgreiðenda.

„Það hefur sýnt sig að það hefur fremur litla merkingu að efna til umræðu um efni og efnistök við starfsmenn Ríkisútvarpsins. Eðlilegar og sanngjarnar fyrirspurnir og umkvartanir eru í besta falli hundsaðar. Stofnunin fer sínu fram í krafti síns mikla fjárstyrks, eyðir þeim fjármunum sem hentar og án afleiðinga. Hún aflar tekna með mjög skapandi hætti og keyrir áfram umfjöllunarefni eins og hún hafi tekið pólitíska afstöðu í þeim. Og alltaf er sú afstaða með vinstri slagsíðu,“ bætir hann við.