Segir RÚV vera orðið að stjórnmálahreyfingu í hefndarhug

Bjarni Theódór Bjarnason.

Vaxandi spennu er tekið að gæta vegna útsendingar Ríkissjónvarpsins á fréttaskýringaþættinum Kveik í kvöld, þar sem boðuð er viðamikil umfjöllun um Samherja og vafasama starfsemi fyrirtækisins, eins og það hefur verið auglýst. Jafnframt er haft eftir ónafngreindum viðmælanda þáttarins að það sem til stendur að fjalla um þættinum líkist helst skipulagðri glæpastarfsemi.

Öllu lengra er nú ekki hægt að ganga á ásökunum á hendur fyrirtæki eða stjórnendum þess og athygli vekur að fréttamaðurinn Helgi Seljan les ofan í stiklu fyrir þáttinn sem sýnd hefur verið að undanförnu, en hann var potturinn og pannan í umfjöllun RÚV um seðlabankamál Samherja sem byrjaði sem mikil bomba í beinni útsendingu, en gufaði svo upp í réttarkerfinu og endaði sem minna en lítil mús eftir að fjallið hafði tekið joðsótt og rúmlega það.

Enginn á Ríkisútvarpinu, hvorki fréttastjórinn né nokkur fréttamaður, hefur enn séð ástæðu til að biðjast afsökunar á framgöngu sinni í því máli, hvað þá að stjórnendur stofnunarinnar hafi séð ástæðu til að kanna hvort umfjöllun RÚV um málið á sínum tíma og hreint og beint samkrull með Seðlabankanum standist skoðun. Þvert á móti er enn gefið í og engum dylst að mikið stendur til í kvöld. Aukinheldur er farin sú óvenjulega leið að boða samstarf með tímaritinu Stundinni, sem gefur út aukablað í kvöld í tilefni umfjöllunarinnar. Er þess þá að minnast, að fréttamaður Kveiks, Aðalsteinn Kjartansson er bróðir Ingibjargar, ritstjóra Stundarinnar.

Bjarni Theódór Bjarnason, formaður Skíðasambands Íslands og fv. bæjarstjóri í Dalvíkurbyggð, er einn þeirra sem tjáð hafa sig um málið á samskiptamiðlum. Hann segir að ríkisfjölmiðillinn slái nú til baka eftir að hafa orðið ber að undirlægjuhætti þegar árásin á eitt helsta einkafyrirtæki á Íslandi var gerð 27. mars 2012.

„Ríkisfjölmiðlinn var með beina útsendingu af fantalegri innrás í fyrirtækið á Akureyri og Reykjavík. Nú ætlar ríkisfjölmiðillinn að koma með eitthvað nýtt eftir að hafa farið gjörsamlega offörum í umfjöllun eftir innrásina 2012. Sem betur fer er það svo að við Íslendingar teljum að við búum í réttarríki. Ríkisfjölmiðillinn er á nornaveiðum og ætlar ekki að láta sér segjast í árásum á eitt nafntogaðasta einkafyrirtæki landsins. Fyrirtækið sem á bak við eru fjölskyldur, eigendur, starfsfólk (sjómenn, landverkafólk, sölu- og skrifstofufólk) og viðskiptavinir (kaupendur á framleiðsluvörum og birgjar). Einnig eru byggðarlög og íbúar sem tengjast fyrirtækinu sem þurfa að heyra, sjá og borga afnotagjöld af ríkisfjölmiðlinum. Skemmdarverkin (fjárhagslegs, viðskiptalegs og andlegs) sem Seðlabankinn og ríkisfjölmiðillinn hafa valdið fyrirtækinu og fólkinu öllu sem því tengist ríða ekki við einteyming,“ segir hann.

Og Bjarni sparar ekki stóru orðin:

„Nú reynir ríkisfjölmiðillinn, sem hefur enga tiltrú þeirra sem þekkja, heyra og sjá hans fölsku fréttir og ekkifréttir, að klóra í bakkann. Ríkisfjölmiðillinn er rogginn og birtir stiklur um að nú ætli hann sko að hefna sín á Samherja eftir að ríkisfjölmiðillinn hefur orðið uppvís að ráðabruggi og falsfréttum. Hermdarverkin eru dýr fyrir land og þjóð. Ríkisfjölmiðillinn er orðinn að stjórnmálahreyfingu og dómstóli götunnar án löggjafarvalds. Ég legg til aðskilnað ríkisfjölmiðilsins og Lýðveldisins Íslands, þó fyrr hefði verið.“