Segir Sólveigu Önnu hafa sýnt hörmulegan dómgreindarbrest

Sólveig Anna Jónsdóttir.

„Sólveig Anna Jónsdóttir er skelegg baráttukona, sem stundum minnir mig á gamla vini á borð við Guðmund J. og Bjarnfríði Leósdóttur, sem höfðu ríka réttlætiskennd og óþrjótandi þrek í þágu málstaðarins,“ segir Hrafn Jökulsson rithöfundur og skákfrömuður í færslu á fésbókinni þar sem hann undrast harkaleg viðbrögð formanns Eflingar við þeim tilmælum Umboðsmanns barna, að gætt verði að réttindum barna í vinnudeilum og verkföllum sem nú hafa enn og aftur verið boðuð.

Og Hrafn heldur áfram:

„Allir geta skotið yfir markið og það gerir Sólveig Anna með ótrúlegum hætti þegar hún kýs að líta á bréf umboðsmanns barna til samninganefnda Eflingar OG sveitarfélaganna sem freklega árás og verið sé að ,,nota börnin“ svo félagsmenn Eflingar nái ekki fram réttlæti!

Umboðsmaður barna er umboðsmaður barna. Í bréfinu er umboðsmaður barna að koma á framfæri áhyggjum barna af verkföllum sem bætast þá við aðrar þrenginar hálflamaðs skólakerfis.

Umboðsmaður hvetur samninganefndir til að semja — rétt einsog Alma landlæknir hvatti samninganefndir ríkisins OG hjúkrunarfræðinga til að semja.

Túlkun Sólveigar á hinu sjálfsagða erindi umboðsmanns barna er fráleit, og yfirlýsing hennar er einfaldlega full af viljandi mistúlkunum og stóryrðum — okkur er sagt að umboðsmaður sé að ,,spila börnum fram til að grafa undan lögvarinni baráttu launafólks“!!

Viðbrögðin láta auðvitað ekki á sér standa, og eftir höfðinu dansa limirnir: Á Facebook-síðu formanns Eflingar er nú ausið óhróðri yfir umboðsmann barna — sem gegnir einhverju mikilvægasta embætti landsins á vorum dauðans óvissu tímum.

Að útmála umboðsmann barna sem ÓVIN lýsir hörmulegum dómgreindarbresti í hita leiksins.“

Hrafn Jökulsson rithöfundur.

Og hann bætir við:

„Nær væri að Sólveig Anna og aðrir verkalýðsforkólfar, atvinnurekendur, sveitarfélög, foreldrafélög — já og allir sem vettlingi valda — sameinist um a) ræða grafalvarlega stöðu þúsunda barna í kófinu og b) ákveða aðgerðir sem bæta lífsgæði þeirra — og koma þeim börnum til tafarlausrar hjálpar sem kunna að vera vanrækt eða beinlínis í háska stödd.

Og meðal annarra orða: Ég heyri sárafáa valdamenn — og valdamenn sitja hreint ekki bara á þingi — tala af þekkingu, sannfæringu og eldmóði um börnin okkar á tímum kórónaveirunnar. Það ætti að vera brýnasta úrlausnarefni dagsins.“