Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, leikkona og forsetaframbjóðandi, virðist hafa það eina erindi í baráttuna að minna á hversu hræðileg Katrín Jakobsdóttir fv. forsætisráðherra eigi að vera. Þetta skrifar Kolbrún Bergþórsdóttir blaðamaður í vikulegum pistli sínum í Morgunblaðinu í dag, þar sem hún segir að enginn frambjóðandi hafi fengið yfir sig jafn mikinn flaum af fúkyrðum í kosningabaráttunni eins og Katrín nú.
„Eins og harðgreindur maður, sem hefur sannleikann að leiðarljósi, sagði réttilega þá minnir Steinunn Ólína þessa dagana einna mest á eltihrellinn í Baby Reindeer. Og hún kemst upp með það,“ skrifar Kolbrún.
Hún bætir við að mikil hræðsla sé víða um að Katrín kunni að sigra í forsetakosningunum og skrítið sé að látið sé eins og í forsetaslaginn sé „mætt eitthvert stórhættulegt fól sem hafi á ævinni misfarið með vald við hvert tækifæri og ætt áfram í endalausri sjálfhverfu.“ Þvert á móti hafi ótvíræðir mannkostir hennar ekki farið framhjá þeim sem fylgst hafa með þjóðmálum undanfarin ár, hún sé einfaldlega „góð og heiðarleg manneskja, skarpgreind, reynslumikil og mannasættir. Svo er hún líka skemmtileg.“