Segir Stundina gera þá sem hafa önnur sjónarmið en þær einu réttu tortryggilega

Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari.

Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari gagnrýnir fjölmiðilinn Stundina harðlega fyrir að segja frá því að yfirlýstur andstæðingur Mannréttindadómstóls Evrópu hafi verið fenginn til að halda erindi í tilefni af aldarafmæli Hæstaréttar.

Segir Helgi Magnús í færslu á fésbókinni í dag, að þetta sé hefðbundin nálgun hjá þessum snepli, sem kallar sig fjölmiðil, eins og hann orðar það.

„Stilla upp eigin lífsskoðunum blaðamannsins sem þeim einu réttu og gera „andstæðinginn“ sem dirfist að leyfa öðrum sjónarmiðum að heyrast eða er ekki sammála þeim, tortryggilegan,“ segir hann.

Í frétt Stundarinnar sagði meðal annars:

„Í svari Hæstaréttar við fyrirspurn Stundarinnar kemur fram að Þorgeir Örlyggson, forseti Hæstaréttar, Helgi I. Jónsson, fráfarandi varaforseti hæstaréttar og Þorsteinn A. Jónsson skrifstofustjóri gerðu boðslistann á viðburðinn með aðstoð fleiri starfsmanna. Þorgeir og Helgi tóku ákvörðun um það hvernig dagskránni yrði háttað.“

Sjálfur segist Helgi Magnús hafa verið mjög ánægður með framlag hins danska ræðumanns, lagaprófessorsins Mads Bryde Andersen.

„Ég var mjög ánægður með framlag þess danska. Það er full ástæða til að velta fyrir sér stöðu MDE og á hvaða vegferð sá dómstóll er. MDE ef mannanna verk hann er kostaður og settur upp af lýðræðissamfélögum Evrópu og hann er hægt að leggja niður og honum er hægt að breyta ef hann missir traust og trúverðugleika. Það er á ábyrgð dómaranna sem þar dæma að viðhalda trausti þegna aðildarríkjanna á störf dómstólsins.

Öll erum við sammála um að tryggja grundvallarmannréttindi en MDE er kominn út í skurð í sumum dóma sinna, með því að búa til mannréttindabrot úr einhverju sem ekkert tilefni er til eða hreinlega láta vera að verja grundvallarmannréttindi af annarlegum ástæðum, sem mun að mínu áliti verða til að draga úr trausti á dómstólinn og grafa undir tilveru hans með þeim afleiðingum að hann missir slagkraft í málum þar sem raunverulega reynir á mannréttindabrot.

Heldur einhver að lausnin sé að ræða þetta ekki og gera tortryggilegar röksemdir sem fela í sér gagnrýni og efasemdir um ágæti þessa? Heldur einhver að þetta sé spurning um að vera með eða móti en ekki hlusta á allar hliðar? Við höfum okkar eigin dómstóla og ekkert sjálfsagt að dómar Hæstaréttar Íslands séu léttvægari í þessu efni en dómar MDE og eðilegt að velta fyrir sér að hvaða marki eigi að láta dóma MDE hafa vægi í aðildarríkjunum.

Samkvæmt lögum liggur það fyrir að dómar MDE eru ekki bindandi að íslenskum landsrétti sbr. 2. gr. laga nr. 62/1994, það þarf ekkert að deila um það. Þannig er það bara ef einhver hefur áhuga á raunveruleikanum en ekki bara tilfinningaklámi. Dómar MDE hafa fordæmisáhrif að íslenskum rétti að því marki sem íslenskir dómstólar telja hæfilegt.

Ég tek ofan hatt minn fyrir þeim Þorgeiri og Helga að hafa gætt að því helgasta sem dómstólar standa fyrir, greinilega ekki sumir fjölmiðlar, að hleypa öllum sjónarmiðum að og lofa röksemdum að heyrast áður en afstaða er tekin, eða dæmt í máli. Mér vitanlega sitja engir guðir í MDE og það hefur hingað til ekki þurft excelskjal til að velja dómara til að dæma þar enda fáir sótt um, í það minnsta hér á landi,“ segir Helgi Magnús ennfremur.

Meðal þeirra sem leggja orð í belg við færslu Helga Magnúsar er Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Hann segir að svona góðir pistlar þurfi að birtast víðar. Hefur Viljinn nú orðið við því kalli þingmannsins.