Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, formaður þingflokks Pírata, er í sviðsljósinu eftir að siðanefnd Alþingis komst að þeirri niðurstöðu að hún hafi brotið siðareglur þingsins með ummælum um Ásmund Friðriksson og endurgreiðslur sem hann naut frá Alþingi á grundvelli skráninga í akstursdagbók hans.
Fréttablaðið segir frá því í dag, að siðanefndin hafi sent forsætisnefnd Alþingis ráðgefandi álit þessa efnis, en þau ummæli sem málið snýst aðallega um eru þau að uppi sé „rökstuddur grunur“ um að Ásmundur hafi „dregið sér fé, almannafé“.
Þórhildur Sunna er þannig fyrsti þingmaður lýðveldisins sem telst hafa gerst brotleg við siðareglur þingsins og miðað við málflutning Pírata undanfarin ár í þinginu, sem hafa ítrekað talað fyrir mikilvægi siðareglna og siðanefndar fyrir þingmenn, getur þess ekki verið langt að bíða að hún segi af sér.
Geri hún það ekki, verður ekki bara holur hljómur í gagnrýni Pírata á framgöngu og siðferði annarra alþingismanna í framtíðinni, heldur verður hún marklaus með öllu.