Segir tvær konur og verktaka hafa sent sig í minnihluta

Theodóra Sigurlaug Þorsteinsdóttir bæjarfulltrúi Bjartrar framtíðar í Kópavogi.

Kallinn á kassanum skrifar:

Sagt hefur verið að fátt sé eins ömurlegt fyrir stjórnmálamenn og að vera í minnihluta í sveitarstjórnarmálum. Tilvist minnihlutans byggist á því að hlusta á ákvarðanir annarra en reyna þó að hafa áhrif á gang mála með gagnrýni. Gagnrýni má flokka á tvenna vegu: þ.e. uppbyggjandi gagnrýni og niðurrif — að vera á móti til að vera á móti.

Theódóra Sigurlaug Þorsteinsdóttir, bæjarfulltrúi Bjartrar framtíðar í Kópavogi og fyrrverandi formaður bæjarráðs og alþingismaður á síðasta kjörtímabili, fer mikinn á Facebook síðu sinni þar sem hún reynir að gera núverandi meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknar tortryggilegan sem handbendi verktaka þar í bæ. Um stöðuna sína sem fulltrúa í minnihluta núna kennir hún tveimur konum í bæjarstjórn og ótilteknum verktökum.

Sem sagt; verktakar ráða ríkjum í Kópavogi og stjórna bænum!

Ég hef ekki mikið verið að tjá mig um bæjarmálin í Kópavogi á þessu tæpa ári frá því að 2 konur og verktakar í Sjálfstæðisflokknum ákváðu að senda mig í minnihluta, eins og frægt er. Ég er hins vegar mjög döpur yfir því hvert við stefnum núna. Ég vildi hefja Kópavog til flugs í að vera fyrirmynd og framsækið sveitarfélag og bjóða upp á bestu þjónustu allra sveitarfélaga,“ segir Theodóra á fésbók.

Fyrst ber að nefna að með engu móti er hægt að sjá að verktakar komi nálægt opinberri stjórnsýslu bæjarins, þá sérstaklega þar sem ekki hefur verið úthlutað nógu stórum bletti til lóðaframkvæmda á vegum bæjarins á þessu kjörtímabili. Allar núverandi framkvæmdir, sem eru í gangi, má rekja til ákvarðana síðasta meirihluta sem Theodóra sat í sem fulltrúi Bjartrar framtíðar.

Spillingarbærinn mikli

Þá segir Theodóra að fyrri meirihlutinn hafi unnið markvisst að því að taka stefnumótun og vinnubrögð í stjórnsýslu á nýtt stig og stökkbreyta Kópavogi úr því að vera spillingarbær í að verða til fyrirmyndar í einu og öllu.

Við höfðum öll tækifæri til þess enda vorum við langt komin en svo poppaði upp gamla pólitíkin í Sjálfstæðisflokknum í kosningunum í vor, eitthvað sem ég hélt að Sjálfstæðisflokkurinn væri kominn yfir. Klofningur innan Sjálfstæðisflokksins varð skýr og gamla verktaka-pólitíkin (sem var ósátt við mig) poppaði upp aftur. Verktakar eiga ekki að stýra þessu sveitarfélagi,“ segir hún og virðist greinilega telja Kópavog mikinn spillingarbæ, bæði fyrir og eftir að hún sjálf réði þar ríkjum, sem er áhugavert í sjálfu sér.

Ekki björt framtíð heldur svört

Sjálfstæðismenn í Kópavogi undrast mjög þessa skyndilegu eftirsjá Theodóru og þrá eftir meirihlutanum sem var, því hún var framarlega í flokki þeirra forystumanna Bjartrar framtíðar sem sleit ríkisstjórnarsamstarfi óvænt (með þeim rökum að Sjálfstæðisflokkurinn væri að hylma yfir með barnaníðingum!) og taldi þá flokkinn ómögulegan samstarfskost.

Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri í Kópavogi.

Í kjölfarið var það svo auðvitað Björt framtíð sem þurrkaðist út, enda flokkurinn búinn að glata trausti kjósenda.

Naglinn í líkkistuna var rekinn af Jóni Gnarr sem sagði Bjarta framtíð sjúkan flokk, fullan af lágkúru og innanmeinum. Þar með hafði rekunum verið kastað og örlögin ráðin.

Framtíðin ekki lengur björt, heldur svört.

Margt gerðist í bæjarpólitíkinni á síðasta kjörtímabili sem Theodóra nefnir ekki í færslu sinni. Hún ræðir ekkert um persónulegar illdeilur sínar og ýmissa embættismanna bæjarins og ekki heldur þegar handboltahetjunni Einari Þorvarðarsyni var hent út úr bæjarráði.

Út af fyrir sig er skiljanlegt að hún reyni að gera störf annarra bæjarfulltrúa tortryggileg með brigslum um óheiðarleg vinnubrögð og þjónkun við verktaka. Hinn pólitíski bjúgverpill, sem hún kastar á loft, hittir hins vegar ekki í mark og er líklegastur til að villast af leið en rata síðan heim aftur.

Slíkt er gömul saga og ný.

Þeir Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri og Birkir Jón Jónsson formaður bæjarráðs, mættu hins vegar taka það til athugunar, að slá aðeins í klárana og setja fullan kraft í frekari uppbyggingu, því tækifærin eru til staðar í Kópavogi, en það þarf að sjá þau og nýta þau.