Svo sem vænta mátti, eru ekki allir landsmenn ánægðir með lyktir kjörbréfamálsins á þingi í gær og viðbúið að margvísleg eftirmál verði, bæði með kærum til lögreglu og dómstóla hér innanlands og utan.
Niðurstaðan var þó nokkuð afgerandi og hugmyndir Pírata um að alþingiskosningar yrðu endurteknar í heilu lagi í öllum kjördæmum kolfelldar, sem og tillaga Svandísar Svavarsdóttur og Þórunnar Sveinbjarnardóttur um uppkosningu í Norðvesturkjördæmi.
Ein þeirra sem tjáði sig á fésbókinni í gær, var Margrét Frímannsdóttir, fv. formaður Alþýðubandalagsins, sem virðist ekki ánægð með sitt fólk á vinstri kantinum, né þingheim almennt:
„Jæja nú hefur alþingi með litlum staf samþykkt ólöglegar kosningar. Hér eftir mun ég brosa ef okkar þingmenn verða sendir í kosningaeftirlit sérlega þeir sem koma í mínum huga umboðslausir inn á þing og þurfa í hvert skipti sem þeir greiða atkvæði að velta því fyrir sér hvort þeir eigi rétt á því,“ segir hún.
Og hún bætir við sneið til forsætisráðherra: „Ææ Og katrín jak bara seldi þennan part af sálinni líka.“