„Sennilega glataðasta innlegg ársins frá kjörnum fulltrúa“

Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar.

Oddný Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi og fv. fjármálaráðherra, fær kaldar kveðjur frá forsvarsmönnum í íslenskri ferðaþjónustu eftir færslu hennar á fésbók um helgina, þar sem hún gagnrýnir ofvöxt ferðaþjónustunnar undanfarin ár.

Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, segir að þetta sé „sennilega glataðasta innlegg ársins frá kjörnum fulltrúa“. Með því afhjúpi Oddný vanþekkingu sína og sparki um leið í þúsundir íslenkra atvinnurekenda og fjölskyldna.

„Alveg ótrúlega smart á þessum tímapunkti,“ bætir hún við.

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, tekur í sama streng og segir þetta „I told you so“ útspil Oddnýjar, vera „óskaplega taktlaust innlegg í fordæmalausa erfiðleika eigenda ferðaþjónustufyrirtækja og þúsunda starfsfólks í greininni sem nú stendur uppi atvinnulaust.“

Oddný er þingmaður Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi, þar sem uppbygging í ferðaþjónustu hefur verið hvað mest á undanförnum árum.

Guðfinnur Sigurvinsson, fv. fréttamaður RÚV og nú starfsmaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins, bætir við:

„Þetta frá þingmanni Suðurnesjanna og Suðurkjördæmis alls þar sem ferðaþjónusta hefur blómstrað. Ömurlegt útspil.“